Stjórnarráð Íslands

Föstudaginn 12. nóvember 1999, kl. 12:22:12 (1360)

1999-11-12 12:22:12# 125. lþ. 24.8 fundur 160. mál: #A Stjórnarráð Íslands# (aðsetur ríkisstofnana) frv. 121/1999, MÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 125. lþ.

[12:22]

Mörður Árnason (andsvar):

Herra forseti. Sjaldan bregður mær vana sínum og sá tími sem ég hef hér til umráða dugar ekki til að eyða misskilningi og rangtúlkunum hæstv. forsrh. á ræðu minni í dag. Það verður bara að standa það sem sagt hefur verið og ritað verður svo síðar.

Meginmálið er auðvitað þetta, en það verð ég þó að leiðrétta að það sem ég sagði, vitnaði í Hæstarétt og í umsagnir BHM og BSRB, var það að komið hafa fram efasemdir um að hægt sé að afhenda ráðherra þetta vald án þess að breyta stjórnarskránni. Þar er vitnað beint í Hæstarétt. Hann las eina klausu, ég les aðra, með leyfi forseta:

,,Af því``, þ.e. framangreindum sjónarmiðum, ,,þykir leiða að ráðherra verði að leita sér skýrrar heimildar í almennum lögum fyrir flutningi stofnunar frá Reykjavík.``

Ég skil þetta þannig að Hæstiréttur sé að segja: Sérstakur ráðherra þarf í hvert sérstakt skipti að leita sérstakra laga um hverja sérstaka stofnun hvort sem hann er að flytja hana frá Reykjavík og eitthvað annað eða af landsbyggðinni og til Reykjavíkur. Það er það sem túlkun Hæstaréttar snýst um og forsrh. hefur ekki svarað hér enn þá. Hún snýst um ekki bara þetta heldur snýst hún um að Alþingi beri að taka þessar ákvarðanir, þessar pólitísku ákvarðanir, pólitískar í skilningi stjórnskipunarinnar en ekki framkvæmdalegar.

Auðvitað eru allir í pólitík, auðvitað eru ráðherrar í pólitík, guð minn góður. En ráðherrar hafa ekki rétt til þess að taka pólitískar ákvarðanir nema þær séu samkvæmt stjórnarskipunarlögunum, séu byggðar á þingræðinu og þar með, af því að ráðherra er á ábyrgð Alþingis, verður hann að hafa heimild Alþingis til að koma sinni pólitísku ákvörðun í framkvæmd.