Stjórnarráð Íslands

Föstudaginn 12. nóvember 1999, kl. 12:26:10 (1363)

1999-11-12 12:26:10# 125. lþ. 24.8 fundur 160. mál: #A Stjórnarráð Íslands# (aðsetur ríkisstofnana) frv. 121/1999, LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 125. lþ.

[12:26]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að fjalla sérstaklega um ræðu hæstv. forsrh. Hún dæmir sig sjálf og verður færð til bókar í Alþingistíðindi. En Hæstiréttur var í þessu tilviki einfaldlega að skýra réttarástand. Hæstiréttur var að segja við þingið: Alþingi verður hverju sinni að taka ákvörðun um það þegar nýjar ríkisstofnanir eru settar á laggirnar hvar hún á að vera, og ef það á að færa hana frá þeim stað sem hún er þá skuli sett um það sérstök lög. Þetta eru einfaldlega skýr skilaboð Hæstaréttar til Alþingis: Þið hafið ákvörðunarvaldið um hvar þessar stofnanir eiga að vera, það er alveg klárt.

Í slíkri stöðu eru vissulega tveir, þrír möguleikar. Í fyrsta lagi getur Alþingi hverju sinni ákveðið hvar viðkomandi stofnun eigi að vera. Í öðru lagi getur Alþingi ekkert sagt um málið og þá segir Hæstiréttur að niðurstaðan sé sú að hún eigi að vera í Reykjavík. Í þriðja lagi er sá möguleikinn að ákveða hverju sinni hvar þessar stofnanir eiga að vera.

Ég held að að mörgu leyti sé þetta skynsamlegt. Þetta eru að mínu viti stórar ákvarðanir sem ég held að Alþingi eigi að hafa. Nú er komið fram frv. þar sem þess er farið á leit af ríkisstjórninni eða þeim sem það flytja að þetta vald verði af Alþingi tekið og flutt til ráðherra. Ég held að full ástæða sé til að ræða þetta miklum mun betur, sérstaklega í ljósi þess að framkvæmdarvaldið hefur verið að seilast um of allt of langt inn á svið Alþingis, að mínu viti a.m.k., en það er kannski ekki umræðan hér.

Ég beini þeirri fsp. til hæstv. forsrh. hvort það gæti ekki leitt til sömu niðurstöðu að við gerðum þetta með þessum hætti í stað þess að veita eina almenna opna heimild til ráðherra til að ákveða þetta hverju sinni.