Stjórnarráð Íslands

Föstudaginn 12. nóvember 1999, kl. 12:28:59 (1365)

1999-11-12 12:28:59# 125. lþ. 24.8 fundur 160. mál: #A Stjórnarráð Íslands# (aðsetur ríkisstofnana) frv. 121/1999, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 125. lþ.

[12:28]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Það er ekki rétt sem fram kom í máli hæstv. forsrh. að snúið hafi verið út úr orðum fyrrv. hæstv. ráðherra, Guðmundar Bjarnasonar. Það er hins vegar rétt sem hæstv. forsrh. rifjaði upp að Guðmundur Bjarnason, fyrrv. hæstv. ráðherra, var að svara spurningum frá starfsmönnum og öðrum í samfélaginu um ástæður flutningsins. Meðal annars var hann spurður um tilkostnaðinn, hann var spurður um afleiðingar fyrir notandann og starfsmanninn og hann endaði á því að segja að þetta væri pólitísk ákvörðun sem hann ætti rétt á að taka.

[12:30]

Við erum að fjalla um hvar eigi að ræða slíkar pólitískar ákvarðanir. Það er rétt sem hæstv. forsrh. rifjar upp, að þetta mál kom vissulega til umræðu á Alþingi. Það kom hins vegar til umræðu eftir að ákvörðun hafði verið tekin um að flytja Landmælingar frá Reykjavík til Akraness. Ágreiningsefnið er hvenær eigi að taka þessa umræðu á þingi. (Gripið fram í.)

Nú mun hæstv. forsrh. væntanlega gera grein fyrir því sem hann byrjaði að kalla fram í og ég mun þá koma aftur upp og svara því. En þetta var ekki rætt hér á Alþingi þegar ákvörðun var tekin um að flytja þessa stofnun frá Reykjavík til Akraness.