Stjórnarráð Íslands

Föstudaginn 12. nóvember 1999, kl. 12:30:47 (1366)

1999-11-12 12:30:47# 125. lþ. 24.8 fundur 160. mál: #A Stjórnarráð Íslands# (aðsetur ríkisstofnana) frv. 121/1999, forsrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 125. lþ.

[12:30]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að það sé nú ekki verulegur munur á lýsingum okkar tveggja þó að þær kannski virki þannig. Það var umræða um þetta í aðdraganda málsins áður en ráðherrann tók ákvörðun. Það lá í loftinu og umræðan hafði þegar hafist í fjölmiðlum og reyndar var slík umræða um aðdragandann oftar en einu sinni ef ég man þetta rétt, a.m.k. opinberlega.

Ákvörðunin sjálf var ekki tekin á þessum vettvangi, það er rétt hjá hv. þm. Þess vegna var ekki rætt um málið í aðdraganda ákvörðunar þingsins, ákvörðunin var ekki þingsins heldur ráðherrans, að mati ráðherrans og samkvæmt úrlausn færustu manna. Hæstiréttur komst að annarri niðurstöðu eins og kunnugt er. Þess vegna erum við að leggja fram þetta frv. Umræðan fór fram bæði fyrir og eftir á en ákvörðunin lá sem sagt annars staðar.

Ég ítreka að mér fannst ekkert rangt við það sem Guðmundur Bjarnason sagði. Þegar verið var að þýfga hann um kostnað, hagræði og þess háttar þá lýsti fyrrv. hæstv. ráðherrann því að um væri að ræða pólitískt stefnumið um hvar þessi stofnun ætti að vera en ekki hvar það væri ódýrast. Ég sá aldrei neitt rangt við það svar ráðherrans og hefði getað hugsað mér að svara því eins sjálfur.