Textun íslensks sjónvarpsefnis

Föstudaginn 12. nóvember 1999, kl. 12:42:23 (1370)

1999-11-12 12:42:23# 125. lþ. 24.10 fundur 141. mál: #A textun íslensks sjónvarpsefnis# þál., Flm. SJóh (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 125. lþ.

[12:42]

Flm. (Sigríður Jóhannesdóttir) (andsvar):

Ég þakka hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur fyrir hlý orð í garð þessa máls. Hún minnti á annað skylt mál, að táknmál verði móðurmál heyrnarlausra. Það frv. hefur verið flutt hér margoft á undanförnum árum og oft komist nærri því að fá afgreiðslu. Einhvern veginn hefur þó aldrei orðið af því. Það er mjög mikilvægt að það frv. verði afgreitt frá þinginu og mikilvægt að sá hópur hafi skilyrðislausa kröfu á túlkun þegar á þarf að halda.

Ég vil líka minna á að hópurinn sem þetta frv. á sérstaklega við er enginn smáhópur. Talið er að jafnvel 25--30 þúsund Íslendingar mundu þurfa á þessu að halda vegna heyrnardeyfu. Þetta er auðvitað mjög mikilvægt mál og ekki sérlega kostnaðarsamt. Fréttir eru t.d. allar skrifaðar, þær eru allar skrifaðar áður en þær eru sendar út. Þetta er því í raun bara handavinna, að setja línurnar undir fréttirnar um leið og þær eru lesnar og óskiljanlegt hversu lengi það hefur staðið í okkar ágæta sjónvarpsfólki.

Ég vona að þetta frv. fái góða afgreiðslu í þinginu. Ég veit að mjög margir binda við það miklar vonir.