Lánasjóður landbúnaðarins

Föstudaginn 12. nóvember 1999, kl. 13:55:48 (1378)

1999-11-12 13:55:48# 125. lþ. 24.12 fundur 164. mál: #A Lánasjóður landbúnaðarins# (nýsköpunardeild) frv., BjörgvS
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 125. lþ.

[13:55]

Björgvin G. Sigurðsson:

Herra forseti. Mig langar að taka undir með hv. þm. Sigríði Jóhannesdóttur og fagna þessu frv. Ég þakka hv. þm. Árna Gunnarssyni fyrir að leggja það fram. Það er löngu tímabært að gera bragarbót á stöðu íslensks landbúnaðar. Hún er skelfileg í dag og eitt af því sem gæti reist landbúnaðinn úr þeim rústum sem hann víða er í er að auka fé til nýsköpunar, ekki síst með tilliti til útflutnings á hrossum. Þar komum við einnig að þeirri vinnu sem í gangi er með að fá niðurfellda innflutningstolla af íslenskum hestum erlendis.

Það er víða vaxtarbroddur í íslenskum landbúnaði og blómlegt víða sem betur fer en til að uppbygging megi eiga sér stað er nauðsynlegt að til komi aðstoð frá hinu opinbera. Ég tel sjálfsagt að veita hluta af almannafé til þessa verkefnis, verði sýnt fram á að um virka nýsköpun og skynsamlega ráðstöfun á fénu sé að ræða.

Ég ítreka að ég fagna þessu frv. og styð það heils hugar.