Lánasjóður landbúnaðarins

Föstudaginn 12. nóvember 1999, kl. 13:57:40 (1379)

1999-11-12 13:57:40# 125. lþ. 24.12 fundur 164. mál: #A Lánasjóður landbúnaðarins# (nýsköpunardeild) frv., ÓI
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 125. lþ.

[13:57]

Ólafía Ingólfsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að fagna frv. sem hér er lagt fram. Ég tel stöðuna í landbúaðinum það alvarlega að til þurfi að koma aðstoð eða róttæk breyting á borð við þá sem hv. þm. leggur til. Vandamál landbúnaðarins eru ekki aðeins vandamál bænda heldur þjóðarinnar allrar. Í sauðfjárræktinni í dag eru verulegir erfiðleikar og þar þarf að taka til hendinni, þá ekki síst í vöruþróun á landbúnaðarafurðum sem ekki hefur verið í nógu góðum farvegi. Reyndar hefur vöruþróun í mjólkurframleiðslunni verið í þokkalegu standi en betur má ef duga skal.

Oft er litið á beingreiðslur til bænda sem einhvern styrk til þeirra, einhverja ölmusu. Bændur fá oft að heyra að þeir séu baggi á þjóðfélaginu en það gleymist hins vegar að beingreiðslur koma til lækkunar á landbúnaðarvörum og koma neytendum mjög til góða. Ég tel því ekki að beingreiðslur séu einhver styrkur til bænda.

Af stöðunni í mjólkurframleiðslunni má ráða að búum muni fækka um leið og þau stækka. Út af fyrir sig er það ekki óeðlilegt. Það hamlar hins vegar hagræðingu í greininni að verð á kvóta er það hátt að bændur halda frekar að sér höndum.

En ég fagna því að þetta frv. er komið fram og vonast til að það fái fljóta og góða afgreiðslu á hinu háa Alþingi.