Sala á Íslenska menntanetinu

Mánudaginn 15. nóvember 1999, kl. 15:13:47 (1392)

1999-11-15 15:13:47# 125. lþ. 25.1 fundur 141#B sala á Íslenska menntanetinu# (óundirbúin fsp.), menntmrh.
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 125. lþ.

[15:13]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Varðandi þetta mál liggja fyrir ýmsar fyrirspurnir á Alþingi sem ég mun svara og gera nánari grein fyrir stöðu málsins varðandi Íslenska menntanetið og þau málefni sem hv. þm. hreyfði. Birtar hafa verið tvær auglýsingar í blöðunum um sölu Íslenska menntanetsins. Þar er óskað eftir viðræðum við aðila sem kynnu að hafa áhuga á að kaupa netið og það mun skýrast í þeim viðræðum hvernig verður staðið að sölunni og þeim samningum sem takast við hugsanlega kaupendur. Ég hef því ekki stöðu til þess hér og nú að segja nákvæmlega hvað felst í sölunni en þegar rætt var um kaupin á Íslenska menntanetinu fyrir nokkrum árum í þessum sal var greint frá því að hér væri um það að ræða að til bráðabirgða a.m.k. mundi ríkið annast þessa þjónustu. Þá komu mótmæli frá ýmsum einkaaðilum, t.d. frá Ísafirði, gegn því að ríkið væri að taka að sér þessa þjónustu og kaupa hana. Það væri nær að hafa hana í höndum einkaaðila.

Nú hefur þetta gengið í nokkur ár og niðurstaðan þeirra athugana sem fram hafa farið er sú að núna sé lag til að færa þetta verkefni í hendur einkaaðila og síðan að skilgreina þjónustuna við skólana í samræmi við þá samninga sem gerðir verða við þá aðila sem mundu taka að sér og kaupa menntanetið.