Þjóðhagslegar forsendur álvers á Reyðarfirði

Mánudaginn 15. nóvember 1999, kl. 15:27:43 (1405)

1999-11-15 15:27:43# 125. lþ. 25.1 fundur 144#B þjóðhagslegar forsendur álvers á Reyðarfirði# (óundirbúin fsp.), SJS
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 125. lþ.

[15:27]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Að undanförnu hafa verið að birtast afar athyglisverð greinaskrif og umfjöllun um þjóðhagslegt hagræði eða reyndar fremur tap af raforkusölu til nýrrar álbræðslu í Reyðarfirði. Í grein í nýjasta tölublaði Frjálsrar verslunar kemst Sigurður Jóhannesson hagfræðingur að þeirri niðurstöðu að 13 milljarða tap verði af Fljótsdalsvirkjun. Nokkru áður komst Þorsteinn Siglaugsson að svipaðri niðurstöðu, eða allt að 22 milljarða tapi af Fljótsdalsvirkjun miðað við nokkru hærri ávöxtunarkröfur. Einnig má nefna eldri skrif Tryggva Felixsonar og fleiri aðila sem hníga í svipaða átt. Þar á ofan er ljóst að öll áhætta er meira og minna á herðum innlendra aðila í þessu máli. Þjóðhagslegar forsendur fyrirhugaðra stóriðjuframkvæmda eystra virðast því vægast sagt umdeildar meðal hagfræðinga.

Herra forseti. Íslenska ríkið á hér gríðarlegra hagsmuna að gæta, þar á meðal eigendahagsmuna beint sem eigandi Landsvirkjunar að hálfu og eigandi banka sem nú virðist eiga að draga inn í það að fjármagna eða leggja til fjármagn í þessa fjárfestingu. Þá má enn minna á að hæstv. fjmrh. fer með málefni lífeyrissjóða í landinu, en einnig þeim er ætlaður hlutur hér.

Herra forseti. Ég vil því af þessum sökum spyrja hæstv. fjmrh.: Hefur fjmrh. eða fjmrn. látið gera eða hyggst það láta gera, vegna yfirgnæfandi hagsmuna ríkisins í þessu máli, sjálfstæða úttekt eða láta fara fram sjálfstætt mat á vegum ráðuneytisins á þjóðhagslegum forsendum í þessu máli? Það virðast ærin tilefni til, herra forseti, að hæstv. fjmrh., sem á hér að gæta gríðarlegra hagsmuna, standi þannig að málum.