Þjóðhagslegar forsendur álvers á Reyðarfirði

Mánudaginn 15. nóvember 1999, kl. 15:31:02 (1407)

1999-11-15 15:31:02# 125. lþ. 25.1 fundur 144#B þjóðhagslegar forsendur álvers á Reyðarfirði# (óundirbúin fsp.), SJS
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 125. lþ.

[15:31]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Svör hæstv. fjmrh. valda mér miklum vonbrigðum. Ég hefði talið heppilegra að hæstv. fjmrh. hefði brugðist málefnalega við eða telur hæstv. fjmrh. ekkert í húfi? Telur hæstv. fjmrh. ekki ástæðu til þess að fara yfir það þegar margir vel menntaðir hagfræðingar úr ólíkum áttum leggja fram rökstudda útreikninga sem sýna svona tölur, frá 13 og upp í 22 milljarða kr. tap af þessari virkjun sem slíkri? Það má vitna til fleiri þátta og er þó ljóst að áhættan er ekki tekin þarna inn í. Hún er meira og minna öll á herðum íslenska ríkisins eða þá lífeyrissjóðanna ef svo heldur sem horfir og verðmæti náttúrunnar, sem þarna á að fórna, er núll.

Ég held að menn verði að fara að átta sig á því, herra forseti, að hér er svo gríðarleg ákvörðun á ferðinni þar sem er þetta álver í fullri stærð upp á 480 þúsund tonn, 30 milljarða kr. er virkjunin áætluð kosta sem dugir ekki fyrir 1/4, 140--160 milljarðar þar og annað eins í iðjuverinu. (Forseti hringir.) Þetta er stærsta ákvörðun íslenskrar efnahagssögu og hæstv. fjmrh., sem á hér að gæta mestu hagsmunanna, hefur ekkert fram að færa nema skæting.