Einkavæðing ríkisfyrirtækja og dreifð eignaraðild

Mánudaginn 15. nóvember 1999, kl. 16:12:25 (1414)

1999-11-15 16:12:25# 125. lþ. 25.93 fundur 150#B einkavæðing ríkisfyrirtækja og dreifð eignaraðild# (umræður utan dagskrár), LB
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 125. lþ.

[16:12]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Líkt og sá sem talaði hér á undan get ég tekið undir það að erfitt er að átta sig nákvæmlega á um hvað þessari umræðu er ætlað að snúast. Í fyrsta lagi lagði hv. málshefjandi mál sitt þannig upp að hann fór almennt yfir einkavæðingu undanfarinna ára og benti á hvar sérstaklega illa hefði til tekist.

Í sjálfu sér er ekkert óeðlilegt að umræður um einkavæðingu fari fram á hinu háa Alþingi. Víðast hvar eru menn að endurskoða hlutverk ríkisvaldsins á þessu sviði og í þeirri öru þróun sem íslenskur fjármagnsmarkaður hefur verið á undanförnum árum er mikilvægt að skoða málið vendilega.

Ég vil segja að við sem í Samfylkingunni störfum erum mjög fylgjandi því að breytt eignaraðild takist í þeim tilvikum sem ríkisfyrirtæki eru seld líkt og um er að ræða í tilviki Fjárfestingarbanka atvinnulífsins. Að mörgu leyti má halda því fram að vel hafi tekist í þessu tilviki þó jafnframt megi segja að erfitt hafi verið að átta sig á öllum yfirlýsingum og ummælum sem hæstv. ráðherrar létu frá sér fara í þessari umræðu.

Við hjá Samfylkingunni höfum lagt fram fjögur mál, bæði þáltill. og frv., þar sem við höfum bent á leiðir til að ná þessu markmiði, þ.e. um dreifða eignaraðild. Í fyrsta lagi höfum við lagt til breytingu á samkeppnislögum. Í öðru lagi höfum við lagt fram þáltill. um viðskiptasiðferði og einnig höfum við lagt fram á hinu háa Alþingi tillögur um breytingar á lögum um kauphöll og fjármálaeftirlit. Allt þetta miðar að því að reyna að gera hlutverk ríkisins þannig úr garði að þar verði fyrst og fremst um eftirlitshlutverk á fjármálamarkaði að ræða en ekki beint inngrip. Það er kannski þess vegna sem við höfum ekki lagt fram frv. á þessu stigi um dreifða eignaraðild. En það breytir ekki hinu að við höfum mjög sterk viðhorf í þá veru að æskilegt sé að sú niðurstaða fáist.

[16:15]

Virðulegi forseti. Ég veit ekki hversu langt er rétt að halda á þessari braut í umræðunni. Ég vil hins vegar vekja sérstaka athygli á að þegar einkavæðing SR-mjöls átti sér stað á sínum tíma voru í kjölfar þeirrar sölu teknar ákvarðanir um mjög háar arðgreiðslur sem voru nánast þess eðlis að menn fengu að stórum hluta það fjármagn sem þeir lögðu til við kaupin til baka í gegnum arðgreiðslur. Ég ætla að vona, virðulegi forseti, að það sé ekki svo í þessu tilviki þar sem talað hefur verið um að bréfin hafi verið seld á genginu 2,8 að þau verðfalli að hluta þegar kemur að því að greiða arð eftir næstu áramót. Það verður fylgst mjög vandlega með því hvort sama aðferðafræði verði viðhöfð í þessu tilviki og þegar SR-mjöl var selt, að menn fái að stórum hluta framlög sín til baka í arðgreiðslum strax eftir áramót.

En ég vil þó segja að lokum, virðulegi forseti, að ef þessi ótti minn á ekki við rök að styðjast, þá held ég að almennt megi segja um þessa einkavæðingu að þokkalega vel hafi tekist til, þótt erfitt hafi verið að átta sig á öllum þeim yfirlýsingum sem hæstv. ráðherrar hafa gefið í þessu máli.