Einkavæðing ríkisfyrirtækja og dreifð eignaraðild

Mánudaginn 15. nóvember 1999, kl. 16:35:55 (1417)

1999-11-15 16:35:55# 125. lþ. 25.93 fundur 150#B einkavæðing ríkisfyrirtækja og dreifð eignaraðild# (umræður utan dagskrár), PHB
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 125. lþ.

[16:35]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Ég vil þakka hv. málshefjanda fyrir þessa umræðu og alveg sérstaklega tímasetninguna. Hún er sérstaklega ánægjulega valin því að í dag kl. tvö voru seld hlutabréf fyrir 9,7 milljarða og verð ég að óska hæstv. ríkisstjórn til hamingju með þann árangur sem þar hefur náðst. Þetta er sú almesta einkavæðing sem hefur átt sér stað á Íslandi.

Það er þekkt að einkavæðing hefur áhrif á samkeppni. Hún stóreykur samkeppni. Það liggur í hlutarins eðli. Ríkisfyrirtæki geta ekki staðið í samkeppni. Einnig er þekkt að áhrif einkavæðingar á starfsmenn fyrirtækja eru mjög jákvæð. Starfsmennirnir fá umbun fyrir góða vinnu. Svo er ekki með ríkisstarfsmenn, því miður. Mjög margir ríkisstarfsmenn eru frábærir starfskraftar en fá þess lítið notið í launum eða viðurkenningu. Þegar fyrirtæki hafa verið einkavædd þá njóta þessir frábæru starfsmenn þess að fullu hvað þeir afreka.

Einkenni ríkisfyrirtækja er, því miður, metnaðarleysið. Allir líða fyrir það, sérstaklega þjóðin. Afleiðing einkavæðingarinnar hefur verið mikil samkeppni, lækkun á verði, minni vaxtamunur, sem kemur bæði skuldurum og sparifjáreigendum til góða, og lækkun á þóknunum. Neytendunum kemur þetta allt til góða. Þetta er að hluta ástæðan fyrir því góðæri sem við höfum upplifað síðustu árin og upplifum vonandi áfram, verði haldið áfram á þessari braut.

Hv. þm. Ögmundur Jónasson gat þess áðan að ríkisfyrirtæki væru í dreifðri eign. Ég bara spyr: Hvernig var þetta í Sovét? Hún hefur nú aldeilis verið dreifð þar eignin. 250 milljón Rússar áttu hvert einasta fyrirtæki. Mér skilst að það hafi nú ekki verið þannig með áhrifavaldið í þessum fyrirtækjum. Ríkisfyrirtæki eru raunar í eigu eins aðila, þ.e. ríkisins, ekki þjóðarinnar. Ég vil benda hv. þm. á að mikill munur er á þjóð og ríki.

Hv. þm. gat þess líka að ungur maður hefði lagt sparifé sitt inn í FBA. Það kom einmitt fram í viðtalinu við þennan unga mann að hann hefði tekið á sig miklar skuldbindingar. Ég geri ráð fyrir að hann hafi fengið lánað fyrir þessu að miklu leyti. Hann er að taka mikla áhættu og það ætti hv. þm. að gera stundum líka. Hann hefur væntanlega keypt hlut í þessum banka þegar hann var til sölu og séð var að hann mundi hækka mikið í verði.

Herra forseti. Hv. málshefjandi Sverrir Hermannsson gat um SR-mjöl. Hann gleymdi að geta þess að það fyrirtæki hafði verið rekið með tapi í áratugi og aldrei skilað neinum hagnaði í ríkissjóð. En núna borgar það skatta og stendur undir velferðarkerfinu að því leyti, sem við öll viljum.

Þetta eru einkenni á öllum ríkisfyrirtækjum sem hafa verið einkavædd. Þau voru í tapi og því lítils virði en um leið og búið er að einkavæða þau --- það jafnvel nægir að hlutafjárvæða þau --- þá sýna þau hagnað og verða meira virði. Þetta hefur gerst.

FBA hefur hækkað í verði, ekki vegna þess að það hafi verið vanmetið heldur vegna þess að það er meira virði með betri stjórnendum, með betri stjórnun og vegna þess að það þarf að standast kröfur markaðarins. Það er einkenni á einkavæðingunni. Verðið sem fékkst núna var það hátt að það kom aðeins eitt tilboð. Það segir okkur að þetta hafi farið nálægt því að vera albesta verðið sem hægt var að fá. Ég verð enn að óska ríkisstjórninni til hamingju með þetta útboð. Þetta er mjög gott verð og salan vel heppnuð. En það hindrar ekki að bankinn hækki frekar. Nú verður enn meiri krafa og hvatning til að sýna árangur og hagnað.

Mikið hefur verið rætt um dreifða eignaraðild. Skoðun mín er sú að einstaklingar geti ekki átt stóran hlut í FBA. Þetta er það stór banki, það stórt fyrirtæki að það yrði ákaflega óskynsamlegt fyrir einstaklinga að setja alla sína peninga í þennan banka og fyrir fjárfesta yfirleitt. Enda sýnir sagan, bæði í Íslandsbanka og FBA, að eignaraðildin er dreifð. Stærstu hluthafar í Íslandsbanka eiga 10% hlut. Það eru tveir lífeyrissjóðir. Sama er með FBA. Lífeyrissjóðir eru stærstir þar og því ekki einstaklingar sem eru að ná undir sig þessum fyrirtækjum.