Reynslusveitarfélög

Mánudaginn 15. nóvember 1999, kl. 17:14:26 (1425)

1999-11-15 17:14:26# 125. lþ. 25.4 fundur 109. mál: #A reynslusveitarfélög# (gildistími o.fl.) frv. 114/1999, SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 125. lþ.

[17:14]

Svanfríður Jónasdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég held að afskaplega farsælt hafi verið að koma reynslusveitarfélagaverkefnum á, það sé til bóta að menn fari að undangengnum tilraunum í að flytja verkefni eins og málefni fatlaðra og önnur stór verkefni yfir til sveitarfélaganna. Hins vegar er ljóst að þau sveitarfélög sem hafa tekið að sér reynsluverkefni eru ekki öll sátt við það hvernig ríkisvaldið hefur mætt þeim á þessum tilraunatíma, finnst e.t.v. þau mæti ekki nægjanlegum áhuga ríkisvaldsins á því að verkefnin gangi upp og þeim fylgi ekki nægjanlegir fjármunir.

[17:15]

Þess vegna væri æskilegt að heyra það frá hæstv. félmrh. hvernig hann lítur á þessi verkefni.

Telur hann æskilegt að þessi verkefni þróist og nái þess háttar niðurstöðu að um verði að ræða fordæmi fyrir öll sveitarfélög í landinu, þ.e. að hér séum við í raun að undirbúa löggjöf sem feli það í sér að öll sveitarfélög geti með einhverjum hætti yfirtekið þessi verkefni?

Og í öðru lagi: Hefur hann beitt sér í þessu máli? Ég þykist vita að hann hafi heyrt kvartanir einhverra sveitarfélaga yfir embættismönnum eða þeim móttökum sem menn telja sig hafa fengið með sín mál í ráðuneytum. Hefur hann beitt sér í þá veru að hvetja til þess að menn sýni samningalipurð til þess að verkefnin fái gengið upp og við fáum í rauninni þá niðurstöðu úr þessari tilraun að við getum af henni lært?