Reynslusveitarfélög

Mánudaginn 15. nóvember 1999, kl. 17:19:57 (1428)

1999-11-15 17:19:57# 125. lþ. 25.4 fundur 109. mál: #A reynslusveitarfélög# (gildistími o.fl.) frv. 114/1999, félmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 125. lþ.

[17:19]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson) (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt að það komi fram, af því að ég er ekki viss um að ég sé búinn að taka það fram í þessum ræðustól núna, að þetta frv. er að sjálfsögðu flutt að ósk reynslusveitarfélaganna sem vilja halda áfram. Við erum ekki að þvinga reynslusveitarfélögin til að taka að sér nokkur verkefni. Það verður að vera þeirra val að taka verkefni og hvort þau vilja halda þeim áfram.

Auðvitað geta alltaf verið einhverjar mismunandi skoðanir á því hvort nægilega sé borgað með verkefninu eða ekki. Við leggjum það til grundvallar að þetta verði ekki miklu dýrara en ef ríkið héldi áfram að reka þetta. Það er eðlileg búmennska. Við tökum náttúrlega verðlagsbreytingar og launabreytingar á almennum markaði inn í dæmið eins og með grunnskólann t.d. sem er langstærsta yfirfærsla verkefna til sveitarfélaganna. En frv. er flutt vegna þess að viðkomandi sveitarfélög eru ánægð í stórum dráttum með þau verkefni sem þau hafa tekið við og vilja halda þeim áfram.