Reynslusveitarfélög

Mánudaginn 15. nóvember 1999, kl. 17:21:24 (1429)

1999-11-15 17:21:24# 125. lþ. 25.4 fundur 109. mál: #A reynslusveitarfélög# (gildistími o.fl.) frv. 114/1999, ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 125. lþ.

[17:21]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Reynslusveitarfélögin eru gott mál í mínum huga. Ég hef alltaf verið hlynntur því fyrirkomulagi að það væri reynt að færa verkefni frá ríki til sveitarfélaga. Að mestu get ég því skrifað undir það frv. sem hér er lagt fram.

En ég vil láta koma fram, eins og hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir drap á, að framkvæmdin á þessu dæmi öllu hefur verið með ólíkindum. Það er ekki bara óánægja, það er miklu meira sem kraumar undir hjá mörgum af þessum sveitarfélögum. Ég hef upplýsingar um að þar eru menn að leggja stórkostlega með og ekki bara út frá launamálum heldur líka út frá rekstrarmálum og það er sorglegt. Ef við höfum metnað til þess að vera með kerfisbreytingar af þessu tagi og trúum á þær, þá er grundvallaratriði að menn fari í það af myndarskap og í því vil ég meina að ráðuneytið hafi ekki staðið sig. Misvægi eins og varðandi laun er einn hluturinn. En það er margt margt annað í þessu. Ég nefni sem dæmi heilsugæslustöðvarnar. Sveitarfélögin hafa þurft að borga gríðarlega með því dæmi öllu og það er vont mál vegna þess að þeir fjármunir sem eru settir inn í venjubundinn rekstur ríkisins verða ekki notaðir í annað hjá sveitarfélögunum. Þetta hefur valdið gríðarlegum vandræðum í minnkun nauðsynlegra framkvæmda á öðrum sviðum hjá þessum sveitarfélögum, sem er algerlega óviðunandi.

Ég spyr hæstv. félmrh. hvort þess megi ekki vænta að menn verði svolítið metnaðarfyllri í samskiptum sínum varðandi þessi verkefni, stilli sér ekki alltaf upp sem varðhundum ríkisins heldur láti svolítið örla á metnaði fyrir því að við séum að gera eitthvað sem til frambúðar komi okkur betur.