Reynslusveitarfélög

Mánudaginn 15. nóvember 1999, kl. 17:27:54 (1432)

1999-11-15 17:27:54# 125. lþ. 25.4 fundur 109. mál: #A reynslusveitarfélög# (gildistími o.fl.) frv. 114/1999, félmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 125. lþ.

[17:27]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson) (andsvar):

Herra forseti. Það væri náttúrlega algert ábyrgðarleysi hjá þeim sem eiga að forvalta ríkisfjármálin að vera að fara með einhverjum galgopaskap í samskiptum við sveitarfélögin eða aðra. Við vitum hvað hlutirnir kostuðu hjá ríkinu og við reiknum með því að þeir verði eitthvað dýrari og taki verðlagshækkunum. Varðandi grunnskólann var reiknað með hliðstæðri hækkun til kennara eins og annarra stétta í þjóðfélaginu.

Hv. þm. talaði um að einhverja tugi millj. vantaði upp á að hans sveitarfélag fengi það sem það vildi. Það skiptir reyndar þó nokkrum hundruðum milljóna sem borgað er til Akureyrar með þeim verkefnum sem Akureyri hefur tekið við í reynslusveitarfélagaverkefninu. Það er alls ekki hugmyndin að kúga Akureyringa til þess að halda þessu áfram. Ef þeir eru óánægðir með verkefnið og samningar takast ekki þá náttúrlega knýjum við ekki Akureyringa til þess að halda áfram þessum verkefnum.