Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Þriðjudaginn 16. nóvember 1999, kl. 12:33:50 (1446)

1999-11-16 12:33:50# 125. lþ. 26.3 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 125. lþ.

[12:33]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það voru ekki mín orð að tillaga hæstv. iðnrh. væri sýndartillaga, alls ekki. Ég tel þessa tillögu mjög eðlilega. Ég tel eðlilegt að taka hana fyrir á hinu háa Alþingi. Segja má að við hefðum alveg eins getað sleppt því. Öll leyfi liggja fyrir og það þarf ekki að taka málið fyrir. Það hefði verið hægt að fara í framkvæmdir án þess. Mér finnst virðingarvert að ríkisstjórnin skuli eigi að síður taka málið til umfjöllunar með þessum hætti. Það þykir mér eðlilegt. Þetta er mál ríkisstjórnarinnar. Þó að hæstv. iðnrh. leggi málið fyrir, þá er þetta að sjálfsögðuð mál ríkisstjórnarinnar.

Sjálfstfl. stendur að þessu máli alveg eins og Framsfl. Við stöndum að málinu í þeim anda sem Alþingi gerði á sínum tíma, þegar m.a. hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon tók afstöðu í málinu. Það má benda á að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hafði skoðanir á þessu máli áður fyrr. (SJS: Hvaða skoðanir hafði Jón Sigurðsson?) Þá sagði hv. þm. í blaðagrein að hann teldi bæði Eyjafjörð og Keilisnes óheppilega kosti í álversmálinu. Hann benti á Austurland sem heppilegan landshluta. Þetta er hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sem ætlar væntanlega að halda áfram í pólitík og fara í framboð, væntanlega í nýju kjördæmi sem nær yfir Austurland. Hann hafði þá skoðun áður fyrr, árið 1990 er mér sagt, að Austurlandi væri heppilegur kostur fyrir álver. En núna er álver mengandi erlend stóriðja. Þetta er málflutningur hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar.