Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Þriðjudaginn 16. nóvember 1999, kl. 12:35:55 (1447)

1999-11-16 12:35:55# 125. lþ. 26.3 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 125. lþ.

[12:35]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég geri ekki athugasemdir við það að menn skipti um skoðun. Ég skipti um skoðun á NATO. Hæstv. forsrh. var einu sinni með Evrópusambandinu en er núna harðasti andstæðingur Evrópusambandsins. Hæstv. umhvrh. fór einu sinni í viðtal við Morgunblaðið til þess að berja á hæstv. iðnrh. og sagði að hún teldi að Fljótsdalsvirkjun ætti að fara í ferli lögmæts umhverfismats. Svo að segja á sama degi og hæstv. umhvrh. varð ráðherra þá skipti hún um skoðun. Ég geri ekki athugasemd við það.

En ég geri athugasemd við eitt: Hver er skýringin á þessum sinnaskiptum? Þegar stjórnmálamaður reyndir að slá sér upp eins og hæstv. umhvrh. gerði á kostnað kollega síns í Framsfl., gagnvart þjóðinni og þingheimi, þá skuldar hún okkur skýringar. Mér finnst að hæstv. umhvrh. hefði átt að nota ræðu sína til þess að skýra það. Hún hefur fyllsta rétt til þess að skipta um skoðun. En hvað olli sinnaskiptunum?

Herra forseti. Af því að ég er gamall skipulagsráðherra get ég ekki á mér setið, eftir að hafa hlustað á þessa skipulagstuggu hæstv. ráðherra, að fagna því að hæstv. ráðherra vísaði til 2. mgr. 5. gr. laga nr. 19/1964. Þar segir að ef um er að ræða framkvæmd á svæði sem ekki er skipulagsskylt þá þurfi heimild sveitarfélagsins. Það kom mér nokkuð á óvart að hæstv. ráðherra sagði að ekki einu sinni og ekki tvisvar sinnum heldur þrisvar sinnum hefði Landsvirkjun skrifað sveitarstjórn í Fljótsdalshreppi. Hæstv. ráðherra klykkti út með því að segja: ,,Enn hefur Landsvirkjun ekki gengið eftir fullnaðarsvari.``

Þýðir þetta, herra forseti, og nú spyr ég hæstv. umhvrh., að aldrei hafi legið fyrir formlegt framkvæmdaleyfi af hálfu hreppsins gagnvart Landsvirkjun? (KF: Þetta kemur fram í tillögunni.)