Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Þriðjudaginn 16. nóvember 1999, kl. 12:43:11 (1451)

1999-11-16 12:43:11# 125. lþ. 26.3 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, ÖS
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 125. lþ.

[12:43]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að deila við hæstv. umhvrh. um þetta mál. Hún hefur fullt leyfi til að skipta um skoðun. Ég veit að hún er í erfiðri stöðu alveg eins og ágætur kollegi hennar og forveri. Hæstv. þáv. umhvrh. Guðmundur Bjarnason var í ákaflega erfiðri stöðu og ég skildi vel að málið var honum mjög erfitt.

Í þessari umræðu hefur komið fram að stjórnarliðið virðist bersýnilega telja málið afskaplega tæpt. Ég verð að segja, herra forseti, að ummæli hæstv. forsrh. voru honum til skammar hér áðan. Hæstv. forsrh. kom hingað og hélt því fram að við í Samfylkingunni hefðum enga stefnu. Herra forseti. Það liggur fyrir hér og var lýst af hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur að við í Samfylkingunni erum reiðubúin til að lýsa yfir stuðningi við áform um gerð Fljótsdalsvirkjunar og síðan segir í þeirri brtt. sem við komum fram með: ,,... að fengnu jákvæðu mati á umhverfisáhrifum framkvæmdanna ...``

Herra forseti. Afstaða okkar liggur fyrir. Ef niðurstaða umhverfismats er jákvæð þá styðjum við þetta. Hæstv. forsrh. kaus hins vegar að koma hingað með skítkast og útúrsnúning.

Þó var miklu verra að hæstv. forsrh. sýndi að hann hefur ekki hundsvit á því ferli sem lögin um mat á umhverfisáhrifum mæla fyrir. Hæstv. forsrh. kom hingað og af máli hans mátti skilja að hann teldi mestu skipta að í því ferli fjallaði skipulagsstjóri um málið og síðan umhvrh. Hann gerir sér ekki grein fyrir því að hlutverk sérfræðinga Skipulagsstofnunar er að fjalla hlutlaust um frummatsskýrslu sem gerð er af framkvæmdaaðila og er eðli málsins samkvæmt aldrei algerlega hlutlaus. Þess vegna var þessu skellt inn í lögin á sínum tíma.

[12:45]

Herra forseti. Hæstv. forsrh. hefur sýnt að hann er ekki hæfur til þess að taka þátt í þessari umræðu og hlýtur þar af leiðandi að tilheyra þeim 80% þjóðarinnar sem ný könnun hefur sýnt að hafa ekki næga þekkingu á ferli umhverfismats. Ég vil hins vegar benda hæstv. forsrh. á að Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands áformar nú að hafa námskeið í umhverfismati og við í Samfylkingunni erum reiðubúin til þess að skjóta saman til þess að kosta nám hæstv. forsrh. í þeim efnum.

Herra forseti. Það sem skiptir auðvitað máli hér er að allar aðstæður og viðhorf eru mjög breytt frá því sem áður var. Það er alveg hárrétt að við sem vorum í Alþfl. 1991 studdum þetta alveg eins og mjög margir aðrir. Menn hafa skipt um skoðun og þjóðin hefur skipt um skoðun varðandi viðhorf sín gagnvart náttúrunni. Við viljum nefnilega ekki, eins og hæstv. forsrh. orðaði það svo hnyttilega, að ætt verði í framkvæmdir. Við viljum að það verði kannað áður, náttúran verði látin njóta vafans og fyllstu varúðarreglu verði beitt.

Herra forseti. Ég er algjörlega á móti því að þetta mál sé komið hérna inn í þingið. Mér fannst það líka vera forstjóra Landsvirkjunar til skammar að hann skyldi í rauninni svipta hulunni af málatilbúnaðinum öllum með því að gefa þinginu fyrirskipun um hvað við hefðum langan tíma til þess að fjalla um þetta. Ég ætla hins vegar, herra forseti, fyrst málið er komið hingað, að reyna að taka þátt í málefnalegri umræðu. Mér fannst ræða hæstv. iðnrh. prýðileg og mun betri en skýrsla Landsvirkjunar. Það verð ég að segja, herra forseti.

Það kemur fram í tillögu hæstv. iðnrh. að ríkisstjórnina bresti lagaheimildir til að kveða á um að Fljótsdalsvirkjun skuli fara í umhverfismat. Herra forseti. Hæstv. ráðherra var annarrar skoðunar í fyrra, nánar tiltekið 12. október, þegar hann sagði að það væri á valdi Landsvirkjunar að ákveða hvort farið yrði í mat á afleiðingum virkjunarinnar. Það eru litlir kallar sem segja eitt í fyrra og koma síðan núna og segja annað. Hæstv. iðnrh. skuldar okkur líka skýringar á þessum mun á skoðunum sínum. Hæstv. ráðherra segir jafnframt að ríkisstjórnin sé ekki reiðubúin til þess að beita sér fyrir hinum nauðsynlegu lagaheimildum enda kynni slík lagasetning að hafa í för með sér bótaskyldu ríkissjóðs gagnvart virkjunaraðilum. Við skulum aðeins skoða þetta nánar.

Hver er þessi bótaskylda og á hverju grundvallast hún? Það er ekkert um það sagt í greinargerðinni. Ég sé fyrir mér að hún gæti hugsanlega grundvallast á þrennu, kostnaði vegna lands- og vatnsréttinda, útlögðum kostnaði Landsvirkjunar vegna rannsókna og framkvæmda og loks missi hugsanlegs hagnaðar fyrirtækisins af virkjuninni. Það kemur fram, herra forseti, í skýrslunni að fyrirtækið hefur fengið öll réttindi á silfurfati, land undir veitur og lón, vegi og skurði, stöðvarhús og námur. Það kemur líka í ljós þar að mestöll mannvirki verða á jörðum í eigu ríkisins nema að sjálfsögðu á Hóli í Fljótsdal sem fyrrv. umhvrh. seldi síðasta dag sinn í embætti landbrh. Hinir heppnu voru vitaskuld valinkunnir framsóknarmenn á Egilsstöðum eins og kosningastjóri þeirra þar getur staðfest, herra forseti, þannig að þetta atriði gefur ekki tilefni til skaðabóta.

Hver er svo útlagður kostnaður Landsvirkjunar vegna virkjunarinnar? Það kemur fram á bls. 7 að það séu u.þ.b. 3 milljarðar. Hvað felst í þessari tölu? Helmingurinn er kostnaður vegna grunnrannsókna Orkustofnunar sem unnar voru á árunum 1975 og fram yfir 1980 og þær taka til allra mögulegra virkjana sem hafa verið í umræðu á þessu svæði. Það er fráleitt að telja það allt til Fljótsdalsvirkjunar. 850 millj. eru svo vegna hönnunar og framkvæmda og tæplega 100 milljónir vegna aðstöðusköpunar og eftirlits. Stöldrum nú aðeins við þetta.

Á bls. 9 í greinargerðinni kemur fram afskaplega mikilvæg staðreynd. Þar er greint frá því að þrátt fyrir ítrekaðar óskir Landsvirkjunar, eins og hæstv. umhvrh. gat um hér áðan, þá gaf sveitarstjórn Fljótsdalshrepps aldrei formlegt leyfi sitt fyrir þessum framkvæmdum. Slíkt leyfi er þó klárlega nauðsynlegt samkvæmt 2. mgr. 5. gr. laganna frá 1964, og það kemur ítrekað fram í greinargerðinni að svo er. Fyrirtækið ræðst því í þessar framkvæmdir með það á hættu að fá ekki formlega leyfið. Fyrirtækið tekur sjálft þessa áhættu og þar af leiðandi getur það aldrei orðið andlag skaðabótakrafna. Það er alveg ljóst, herra forseti.

Í þriðja lagi: Hver er þá missir hins hugsanlega arðs af Fljótsdalsvirkjun? Það er ekki erfitt að reikna út og það hefur nýlega verið gert. Fjárfestingin er í kringum 25 milljarðar og við skulum láta milli hluta liggja þá 3 milljarða sem eru til undirbúnings og ég tek þá ekki með. Afskriftartímann er hægt að reikna sem 45 ár. Orkugeta virkjunarinnar var til skamms tíma 1.250 gígavattstundir en er frá síðustu viku orðin 1.400 gígavattstundir og við skulum gefa okkur það. Breyturnar sem þá skipta máli eru vextir og orkuverð.

Opinberar framkvæmdir í Bretlandi hafa verið núvirtar miðað við 6% vexti. Alþjóðabankinn gefur sér 5--7% vexti. Við skulum gefa okkur 6% vexti vegna þess að Friðrik Sophusson hefur aðspurður ekki gert athugasemdir við það tvisvar sinnum í fjölmiðlum. Og hvað þýðir þetta þá, herra forseti? Það þýðir að miðað við meðalverð á orku í fyrra, 88 aura á kwst., þá þarf orkuverðið að hækka um það bil 35--45% til þess að ekki verði 10 milljarða tap á framkvæmdinni, og ef við tökum undirbúningskostnaðinn með, 13 milljarða tap.

Herra forseti. Landsvirkjun ætti nú að borga okkur fyrir að reyna að forða henni frá þessari vitleysu. Þetta er auðvitað það sem gerði það að verkum að Norsk Hydro hljóp frá fyrri áætlunum sínum um að eiga í þessari virkjun. Þetta skiptir auðvitað máli, herra forseti. Rök ríkisstjórnarinnar um að ekki sé hættandi á að setja framkvæmdina í umhverfismat vegna þess að það baki skaðabótaábyrgð, eru gjörsamlega hrunin. Þær tölur sem hafa verið nefndar eru ekkert annað en blekkingar.

Ríkisstjórnin segir líka að það eigi ekki að setja þetta í mat á umhverfisáhrifum vegna hins umdeilda bráðabirgðaákvæðis í lögunum frá 1993. Til að hún geti fullyrt það þá er alveg ljóst að gamla virkjunarleyfið verður að vera í fullu gildi. Ég dró ekki í efa að svo væri fyrr en ég las greinargerð ríkisstjórnarinnar. Ég taldi ótvírætt að leyfið héldi. En það rennur upp fyrir mér að það er í besta falli á gráu svæði. Í fyrsta lagi var virkjanaleyfið klárlega gefið út á grundvelli bráðabirgðaákvæðis I í lögunum frá 1990. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Takist samningar um að reisa nýtt álver á grundvelli yfirlýsingar, dags. 13. mars 1990, milli ríkisstjórnarinnar og ATLANTAL-aðilanna um ásetning að ljúka samningum um nýtt álver með 200 þús. tonna framleiðslu á ári skal mæta orkuþörf þess með því að ráðast auk Blönduvirkjunar í eftirtaldar framkvæmdir ...:

1. Fljótsdalsvirkjun.``

Herra forseti. Það er alveg ljóst að hérna eru lögin og leyfið sem á þeim byggist skilyrt við tiltekið verkefni á vegum Atlantal-hópsins. Þessi hópur er ekki lengur til, herra forseti. Það er afar hæpið að leyfið haldi sökum þess. Annað skiptir þá meira máli. Fyrst hæstv. ráðherra, og ekki síst hæstv. forsrh., ætlar að binda sig við lagaklæki þá skiptir auðvitað máli hvernig menn ganga frá hlutunum formlega, herra forseti. Það er alveg ljóst að það skilyrði laganna frá 1964 um formlega afstöðu Fljótsdalshrepps liggur ekki fyrir. Það lá ekki fyrir 1991 og ekki 1992, og þó. Eins og hæstv. umhvrh. hefur rakið var þrisvar sinnum gengið eftir því og leyfið kom ekki. Virkjunarleyfi sem hékk á því hlýtur þar af leiðandi að vera fallið. Þar af leiðir, leyfi ég mér að álykta, herra forseti, og menn geta auðvitað deilt um það, að mönnum sé ekki lengur stætt á því að halda því fram að virkjunarleyfi hafi verið í gildi þegar bráðabirgðaákvæðið var samþykkt. Það er hreinlega alveg út í hróa hött að halda því fram.

Ástæðan fyrir flótta ríkisstjórnarinnar í málinu kemur auðvitað fram, herra forseti, á fyrstu síðu greinargerðar með tillögunni. Þeir leggja einfaldlega ekki í matið vegna þess að þeir gefa sér það fyrir fram að niðurstaðan verði svo neikvæð að ekki verði hægt að ráðast í framkvæmdina.

Annað skilur ekki hæstv. forsrh. og það er honum líka til skammar. Hann virðist ekki skilja að eitt af aðalviðfangsefnum mats á umhverfisáhrifum er einmitt að meta mismunandi kosti og það eru uppi mismunandi kostir. Hæstv. utanrrh., helsti formælandinn í þessu máli, kom á forsíðu Dags fyrir á að giska einu, tveimur missirum og benti á valkost, sem var Kárahnúkavirkjun. Ég tel að ég eigi heimtingu á því sem borgari í þessu landi að fá málefnalega umfjöllun um þann valkost og valkost sem Helgi Hallgrímsson náttúrufræðingur hefur sett fram um að flytja lónið til.

Kem ég þá að því sem mér finnst vera mikilvægast í ferlinu --- ferlið eins og hæstv. iðnrh. setur það upp gagnvart þinginu getur ekki bætt þetta --- og það er að fá hlutlausa sérfræðinga, á vegum þessarar stofnunar sem þessum herrum er svo í nöp við, til að véla um málið. Lögin segja að framkvæmdaaðilinn eigi að gera frummatið og það er ekkert að því. En það er ekkert skrýtið þó að hann kunni að setja staðreyndir þannig fram að þær þurfi að skoða betur. Lögin mæla fyrir um að ef hinir hlutlausu sérfræðingar telja svo, þá á að óska eftir nýjum rannsóknum, nýjum upplýsingum eða einfaldlega að henda skýrslunni í hausinn á þeim sem gerði hana. Það, herra forseti, yrði gert við þessa skýrslu sem hér kemur fram vegna þess að þeir sem gera hana voru ekki nægilega heiðarlegir til þess að draga fram þau aðalatriði sem hæstv. iðnrh. gerði þó í sinni ræðu.

Þó erfitt sé að fara á þessum tíma sem við höfðum í gegnum þær 520 eða 540 blaðsíður sem við fengum þá reyndi ég að hlaupa yfir þessa skýrslu. Ég er ekki viss um að ég hafi náð öllu. En það er þó alveg ljóst, herra forseti, að þar eru atriði sem sums staðar koma fram en koma aldrei fram í samantektinni og sum koma ekki fram. Ég nefni t.d. að það kemur hvergi fram, ég hef a.m.k. ekki séð það, herra forseti, að Eyjabakkar eru mikilvægir í sjálfu sér af því að þeir eru flæðilendi á hálendi. Það er nóg af flæðilendum til á Íslandi en þau eru á láglendi. Þau eru örfá á hálendinu. Þjórsárver er númer eitt, en þetta er hið næstmikilvægasta. Ég fann hvergi að þetta væri dregið fram og hljótum við þó að hafa svona atriði til hliðsjónar.

Hæstv. iðnrh. benti á þá staðreynd að svæðið væri líka mikilvægt vegna þess að þar er um að ræða eina samfellda gróðurlendið frá jaðri jökuls niður til sjávar. Það kemur fram á bls. 72 í milliskýrslunni, í skýrslu Landsvirkjunar, en kemur ekki fram í samantektinni.

Eitt er að finna á Eyjabakkasvæðinu sem er einstakt, ekki á landinu heldur í heiminum og það eru hinir svokölluðu hraukar. Berggrunnurinn á þessu svæði er þannig. Áin grefur sig ekki niður og þar af leiðir fossaröðin. Þar af leiðir líka setmyndunin og jarðvegsmyndunin á Eyjabakkasvæðinu. Jökullinn hefur ýtt þessu mýrlendi, þessum gróðurleifum upp í hrauka. Það eru svona hraukar hinum megin við Snæfellið sem Brúarjökull hefur ýtt upp í Kringilsárrana en þeir eru úr allt öðru efni. Þessir hraukar úr þessu efni eru hvergi til í heiminum annars staðar. Þó leyfa þessir herrar sér að segja í samantekt skýrslunnar að þetta sé ekki einsdæmi og svipað sé til m.a. á Svalbarða. Þeir jarðfræðingar sem ég hef talað við --- og þekki ég nú einn giska náið eins og þingheimur veit --- kannast ekki við það. Það sem skiptir mestu máli er að þó að alls staðar sé vitnað til heimilda í þessari skýrslu þá er ekki vitnað til heimilda þarna.

Herra forseti. Eitt dæmi er enn. Ég gæti þó farið með svo mörg dæmi. Eitt dæmi enn varðar Ramsar-samninginn. Er ekki lágmarkskrafa þegar menn eru að gera matsskýrslu um þetta og fjalla um Ramsar-samninginn að greina frá því að ein af greinum hans mælir sérstaklega fyrir um að ekki megi farga votlendi nema láta fara fram mat á umhverfisáhrifum? Menn geta deilt um hvort það eigi að ráða úrslitum, en óhjákvæmilega hlýtur það að þurfa að koma fram í svona skýrslu. Það kom ekki fram í skýrslunni, herra forseti.

Ég segi á grundvelli þess hraðlesturs sem ég er neyddur til þess að viðhafa á þessari skýrslu: Þessi skýrsla er ótæk sem frummatsskýrsla og hún hefði verið send beint til föðurhúsanna ef málið hefði fengið eðlilega framkvæmd. Það fær málið auðvitað ekki. Þetta er stærsta athugasemdin sem ég geri við þessa tilteknu aðferð hæstv. ráðherra.