Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Þriðjudaginn 16. nóvember 1999, kl. 13:00:20 (1453)

1999-11-16 13:00:20# 125. lþ. 26.3 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 125. lþ.

[13:00]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Þessi orðaskipti okkar hæstv. iðnrh. sýna auðvitað í hnotskurn galla þeirrar aðferðar sem hann hefur valið. Hann kemur inn í þingið með algerlega mótaða afstöðu. Ég kem inn í þingið sennilega með jafnharða aðstöðu. Eigum við síðan að vegast á með rökum og komast að skynsamlegri niðurstöðu? Þegar lögin um hið lögformlega umhverfismat voru sett var ætlast til að málin væru sett í hendur hlutlausra manna. En látum það nú vera, herra forseti.

Tímasetningin er þannig að ekki er hægt að fara í matið, segir hæstv. umhvrh. Hann vísar til samkomulags. Ég þakka honum fyrir að kalla það samkomulag. Í útvarpinu í morgun kallaði hann það samning. Þetta er auðvitað ekkert annað en viljayfirlýsing og ekki bindandi samkomulag. Ef hæstv. iðnrh., með allri þeirri atorku og krafti sem hann býr yfir, fengi félaga sína hjá Norsk Hydro, sem hafa ekki beinlínis verið gríðarlega fúsir til þessa verks, til að endurtímasetja þetta þá er ég viss um að hann gæti það. Hann vill það hins vegar ekki, herra forseti. Ef honum væri annt um að þetta færi í matið þá hefði hann auðvitað ráðist í það í fyrra þegar kollegi hans, hæstv. þáv. umhvrh., sagði að rétt væri að þetta færi í mat, einhvern tíma í júní 1998. Miðað við þær tímasetningarnar sem hæstv. iðnrh. setur upp í þáltill. sinni mundi það akkúrat smella. Miðað við ýtrasta tímaramma umhverfismats sem hann sjálfur setur upp þá gæti hann farið að búa til ál, ef niðurstaðan yrði jákvæð, í lok ársins 2003, í síðasta lagi í byrjun árs 2004.

Herra forseti. Varðandi hinar lagalegu forsendur efaðist ég ekki um þær fyrr en í gær þegar ég sá rakið í greinargerðinni að hið formlega framkvæmdaleyfi var ekki til staðar. Ég er þeirrar skoðunar að menn eigi ekki að festa sig við formleikann í þessum málum. En hæstv. iðnrh. býður upp í þann dans og ég stíg dansinn við hann og segi: Ef maður heldur sig við formið þá er hæstv. iðnrh. úr leik og eiginlega komið dömufrí.