Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Þriðjudaginn 16. nóvember 1999, kl. 13:02:22 (1454)

1999-11-16 13:02:22# 125. lþ. 26.3 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 125. lþ.

[13:02]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er engin ástæða fyrir hv. þm. að efast. Ég skil ekki í því að hv. þm. byrjaði einmitt í gær að efast í þessu máli. Allar upplýsingar hafa legið fyrir í mjög langan tíma.

Meginástæðan fyrir því að þetta mál hefur ekki farið í hinn lögbundna kærufarveg eins og ráð er fyrir gert í lögunum um mat á umhverfisáhrifum er vegna þess að framkvæmdin er undanþegin þeim lögum. Auðvitað væri það hægt en ég ítreka að sá tímarammi sem við höfum ef við ætlum að gera þetta verkefni að veruleika, sem við vonandi öll keppum að, er svo knappur að ekki er hægt að taka áhættuna sem því er samfara. Ekkert svæði á landinu hefur fengið aðrar eins rannsóknir til undirbúnings mati á umhverfisáhrifum og þetta.

Niðurstaða okkar, sem um málið höfum fjallað og fengið m.a. til ráðgjafar færa sérfræðinga á því sviði, er að sú áhætta sem tekin er með því að fara af stað með þessar framkvæmdir sé ekki það mikil að hún jafnist á við hinn þjóðhagslega ávinning af málinu. Við teljum ávinninginn meiri en áhættuna sem við tökum.