Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Þriðjudaginn 16. nóvember 1999, kl. 13:03:58 (1455)

1999-11-16 13:03:58# 125. lþ. 26.3 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 125. lþ.

[13:03]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég hafði vænst þess, þegar Landsvirkjun ákvað að ráðast í sérstakar rannsóknir aftur í sumar, að öllum mögulegum spurningum sem eftir lifðu yrði svarað. Ég taldi eins og hæstv. iðnrh. að þarna lægju fyrir alveg gríðarlegar rannsóknir eins og kemur víða fram í þessari skýrslu.

Svo ég taki eitt dæmi er fullyrt á bls. 133, með leyfi forseta:

,,Þrátt fyrir að rannsóknir á dýralífi við Eyjabakka hafi nú staðið yfir í hartnær 30 ár liggja ekki fyrir svör um það hvaða áhrif myndun lóns á Eyjabökkum muni hafa á dýralíf.``

Hér er undarlega að orði kveðið, herra forseti. Í fyrsta lagi hafa verið gerðar mjög takmarkaðar rannsóknir á dýralífi á Eyjabökkum. Eftir því sem ég best veit stóðu þær aðeins yfir í nokkur sumur á milli áranna 1979 og 1981 auk einnar viku sumarið 1975 og talningar á gæsum og hreindýrum á Eyjabökkum dagpart á hverju sumri síðan. Þarf hæstv. iðnrh. að velkjast í vafa um hver áhrif myndunar lónsins yrðu á dýralífið? Ætli dýralífið mundi ekki hverfa þar sem lónið kemur og búsvæðin eyðileggjast?

Herra forseti. Það sem skortir auðvitað í þessa skýrslu er heildarsýn. Ég tala kannski sem falleraður líffræðingur en skelfing þótti mér sárt að lesa þennan part skýrslunnar og sjá að þá fjóra verkfræðinga, að öllum líkindum, sem gerðu þessa skýrslu skorti algerlega sýn til að tengja mikilvægi þessa svæðis við lífríkið og miðhálendið í heild. Það særði mig að sjá hvernig þeir, annaðhvort af einhvers konar vangetu, misskilningi eða vísvitandi, drógu niður og fóru ranglega með mikilvægi hraukanna sem ég var að tala um áðan. Þeir ráða kannski ekki úrslitum en þeir eru einstæðir í heiminum.