Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Þriðjudaginn 16. nóvember 1999, kl. 13:08:08 (1457)

1999-11-16 13:08:08# 125. lþ. 26.3 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 125. lþ.

[13:08]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Afskaplega var það illa til fundið hjá hv. þm. að nefna Gilsfjarðarbrú í þessu sambandi. Það vildi svo til að samkomulag var gert á milli þáv. umhvrh., sem var ég, og Vegagerðarinnar um að láta þetta mál fara í umhverfismat. Hvers vegna, herra forseti? Til þess að draga úr deilunum. Það var gert og var afgreitt fljótlega. Menn nýttu sér þá kærufresti sem þeir höfðu og ekki nokkur einasti maður hefur rifist um þá framkvæmd síðan. Hvers vegna? Vegna þess að það náðist sátt í málinu, menn fengu að njóta andmælaréttarins. Sérfræðingar fóru yfir málið og við komumst að niðurstöðu. Það var engin deila.

Varðandi það sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson er að segja um afstöðu Fljótsdalshrepps þá kann auðvitað að vera að hann sé í ,,telepatísku`` sambandi við alla þá sem sitja þar í sveitarstjórn. Ég er það ekki. Ég er ekki þeim gáfum gæddur. Ég held að hv. þm. hafi ekki verið það fyrr en hann kom þá inn í þingflokk Framsfl. Hann veit nefnilega nákvæmlega ekkert um afstöðu Fljótsdalshrepps. Hún liggur ekki enn þá fyrir. Ég gæti hjálpað hv. þm. og sagt honum að ýmis sveitarfélög þarna sem vildu lögformlegt umhverfismat eins og sveitarstjórnin á Austur-Héraði hafa breytt afstöðu sinni. Hins vegar vekur furðu að þrátt fyrir þessar hörðu deilur hefur sveitarstjórn Fljótsdalshrepps ekki breytt um afstöðu.

Nú ætla ég ekki að halda því fram að hún muni ekki gera það. Ég nota þetta einungis sem dæmi til að sýna að á sínum tíma lá ekki fyrir framkvæmdaleyfi. Það er ekki bara skoðun mín. Það stendur ... (Umhvrh.: Á bls. 9.) Nú er hæstv. umhvrh. búinn að lesa sig svolítið til og er kominn á bls. 9. Þar segir: ,,Samkvæmt þessu liggur ekki fyrir formlegt samþykki Fljótsdalshrepps.``

Hér eru menn að deila um formleikann. Hæstv. ríkisstjórn hefur haslað það dansgólf, ekki við. Ég ítreka það sem ég sagði áðan að mér finnst að menn eigi ekki að hengja sig í það. Mér finnst að það eigi að fara með þetta í mat. Ef niðurstaðan er jákvæð þá eiga menn að fara í þessa framkvæmd annars ekki. Þá mundum við losna við þær deilur og þau erfiðu sár sem ella munu verða eftir á líkama þjóðarinnar.