Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Þriðjudaginn 16. nóvember 1999, kl. 13:10:23 (1458)

1999-11-16 13:10:23# 125. lþ. 26.3 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 125. lþ.

[13:10]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Mér fannst hraustlegt af hv. þm. að tala um að verið hafi deilur um Gilsfjarðarbrú á sínum tíma. Það er varla hægt að kalla málsatvik á þeim tíma þannig að það rísi undir nafni. (ÖS: Þú varst ekki í umhvrh. þá, vinur.) Það var almennur stuðningur við þessa framkvæmd af hálfu heimamanna og mér er ekki kunnugt um nema örfáa menn sem höfðu skoðun á þessu á annan veg. Þeir höfðu hins vegar af og þá væntanlega með stuðningi hv. þm. að tefja framkvæmdina verulega.

Hv. þm. nefndi áðan að menn hefðu skipt um skoðun. Ég legg það ekki mönnum til lasts að skipta um skoðun, við skulum ekki deila um það atriði. Hins vegar er kannski stundum nauðsynlegt að ganga eftir því að menn rökstyðji af hverju þeir skipta um skoðun. Mér finnst hafa skort dálítið á hjá hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni að hann geri grein fyrir því af hverju hann hefur kúvent um 180 gráður í þessu máli.

Við skulum minnast þess að hann sem umhvrh. skrifaði undir það að háspennulína yrði lögð frá Akureyri að Veggjafelli fyrir austan, háspennulína um meginhluta hálendisins. Það leyfi veitti hv. þm. Össur Skarphéðinsson 20. apríl 1994. Það var eftir að lögin um lögformlegt umhverfismat voru sett eða hvað, herra forseti? Mundi hæstv. þáv. umhvrh. ekkert eftir þeim lögum? Hvenær féll hv. þm. frá þeirri skoðun sinni að eðlilegt væri að leggja þessa línu? Var það þegar búið var að breyta framkvæmdunum þannig að ekki þyrfti að leggja þessa línu vegna þess að það ætti að reisa álver á Austfjörðum en ekki á Keilisnesi? Var það vegna þess að það átti að nýta framkvæmdina til að byggja upp atvinnulíf á Austfjörðum en ekki á Keilisnesi sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson skipti um skoðun? Ég spyr. Auglýst er eftir skýringum á umsnúningi þingmannsins.