Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Þriðjudaginn 16. nóvember 1999, kl. 13:12:43 (1459)

1999-11-16 13:12:43# 125. lþ. 26.3 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 125. lþ.

[13:12]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson leggjast heldur lágt ef hann ætlar að halda því fram að skoðanir mínar á þessu máli stafi af sérstakri andúð minni á Austfjörðum eða landsbyggðinni í heild. Ég vara menn við að beita þeim málflutningi að við sem viljum mat á umhverfisráðherrum ... umhverfisáhrifum, viljum það vegna sérstakrar fjandsemi gagnvart landsbyggðinni. Það er ekki svo.

Herra forseti. Mér urðu á þau mistök að tala um mat á umhverfisráðherrum en ég held að vísu að heppilegt væri að það færi fram líka. En síðan 1993 hafa viðhorfin gjörbreyst. Tökum árið 1990 en þá voru menn að leita eftir athugasemdum við þessa framkvæmd. Átta athugasemdir bárust og engin þeirra var um Eyjabakkana. Það eitt sýnir hversu mikið viðhorf fólks hafa breyst. Í dag snýst deilan fyrst og fremst um Eyjabakka.

Hæstv. ráðherrar hafa stundum notað þetta dæmi til þess að ýja að því að einhver múgsefjun sé í kringum þetta Eyjabakkadæmi. Það er að sjálfsögðu ekki svo. Mönnum hefur hins vegar opnast greið leið inn á hálendið á tvo vegu. (Gripið fram í.) Annars vegar með því að fjölmiðlar hafa gert mönnum kleift að kynna sér hálendið og hins vegar gera skipulögð útivistarsamtök það að verkum að tugþúsundir manna fara núna inn á hálendið.

Hv. þm. spyr hvort ég hafi skipt um skoðun. (KHG: Nei ... ) Mín skoðun er nákvæmlega þessi: Ég styð þessa framkvæmd eins og ég hef margtuggið ofan í hv. þm. svo fremi sem niðurstaða mats á umhverfisáhrifum verði jákvæð. Það er eina sáttin sem við getum náð meðal þjóðarinnar í þessu máli. Eins og hæstv. ríkisstjórn hefur leikið í þessu máli þá hefur hún teflt í þær ógöngur að málið sé líklegt til þess að rífa þjóðina á hol. Eina sáttaleiðin, af því að ríkisstjórnin er að tala um sáttaleið, er þetta mat. Menn una niðurstöðunni. Krafa um mat á umhverfisáhrifum felur í sér yfirlýsingu um að menn muni una niðurstöðunni.