Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Þriðjudaginn 16. nóvember 1999, kl. 14:20:31 (1463)

1999-11-16 14:20:31# 125. lþ. 26.3 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 125. lþ.

[14:20]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég sé að það hefur verið hæstv. iðnrh. erfiður samanburður sem ég gerði á honum og Hjörleifi Guttormssyni og ég marka það af því að meira að segja hann sjálfur áttaði sig á því að það sem ég sagði var rétt. Finnur Ingólfsson, hæstv. iðnrh., er enginn Hjörleifur Guttormsson og hann ætti að fara varlega í að reyna að gera þar mannamun á. Ég taldi ekki mjög drengilegt af hæstv. iðnrh. með þeim tilvitnunum, slitnum úr samhengi, í mál Hjörleifs Guttormssonar, fram flutt við allt aðrar aðstæður og á allt öðrum tíma, að láta að því liggja að í raun og veru væri Hjörleifur Guttormsson einhvers konar stuðningsmaður þeirra framkvæmda sem nú að fara að ráðast í. Eða til hvers voru þá tilvitnanirnar, hæstv. iðnrh.? Að leggja það að jöfnu því að segja það eitt um fyrrv. iðnrh., Jón Sigurðsson, að um stóriðjustefnu hans hafi verið ágreiningur í ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar, er nú nokkuð langt gengið. Hvað var það sem ég sagði um þennan ágæta mann, hæstv. fyrrv. iðnrh., Jón Sigurðsson, nú bankastjóra Norræna fjárfestingarbankans? Ég sagði það eitt að um stóriðjustefnu hans hefði verið ágreiningur í þeirri ríkisstjórn, opinbert mál sem hefur legið lengi fyrir og síðan vitnaði ég í hvað hefði verið á dagskrá funda ríkisstjórna í aprílmánuði 1991. Hæstv. iðnrh. kemst náttúrlega ekki svo ódýrt frá málum að leggja það að jöfnu við það sem hæstv. ráðherra var að gera Hjörleifi Guttormssyni upp áðan. Nú vill að vísu svo til að jafnvel þó að Hjörleifur Guttormsson sé utan þingsala um þessar mundir er hann fullfær til að verja orðstír sinn sjálfur. Ég er ekki viss um að það hafi ofan í kaupið, þó við sleppum nú drengskapnum, verið mjög hyggilegt af hæstv. iðnrh., Finni Ingólfssyni, að vera að reyna að espa hv. fyrrv. þingmann og hæstv. fyrrv. ráðherra, Hjörleif Guttormsson, mjög gegn sér.