Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Þriðjudaginn 16. nóvember 1999, kl. 14:22:36 (1464)

1999-11-16 14:22:36# 125. lþ. 26.3 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 125. lþ.

[14:22]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Það þurfti ekki hv. þm., Steingrím J. Sigfússon, upp í ræðustól til að draga upp þann mismun sem er á þeim manni sem hér stendur og fyrrv. hv. þm. og fyrrv. hæstv. iðnrh., Hjörleifi Guttormssyni. Það er öllum ljóst. Hins vegar þakka ég hv. þm. fyrir að draga þann mismun fram. Í ljós kom í umræðu hér áðan og hjá hv. þm. að munurinn á hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni, og fyrrv. hæstv. iðnrh., Jóni Sigurðssyni, var enginn vegna þess að þeir stóðu sameiginlega að þessum ákvörðunum. Af því að vitnað var í það hér þegar á sínum tíma var verið að mynda fyrrv. ríkisstjórn Alþýðuflokks og Sjálfstæðisflokks, þá man ég ekki betur en til þess hefði verið sérstaklega tekið af þáv. formanni Alþýðubandalagsins að það væri ekkert vandamál að halda áfram því stjórnarsamstarfi sem þá var vegna þess að það væri aðeins við einn mann að eiga sem væri vandamálið og það væri þáv. hv. þm. Hjörleifur Guttormsson. Önnur vandamál væru ekki til staðar. Það undirstrikar betur en allt annað að það var enginn munur á hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni og hæstv. fyrrv. iðnrh., Jóni Sigurðssyni, þeir voru sammála í þessu máli.