Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Þriðjudaginn 16. nóvember 1999, kl. 14:25:34 (1466)

1999-11-16 14:25:34# 125. lþ. 26.3 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 125. lþ.

[14:25]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Mig langar til að spyrja hv. þm., eftir að hafa hlustað á þessa ræðu, hvaða álver væri heppilegt og hver væri stærðin á því ef 120 þús. tonna álver er of lítið þannig að útlit er fyrir stórkostlegt tap á því, ef 480 þús. tonna álver er svo hrikalega stórt að Ísland hefur aldrei lagt í glæfralegri fjárfestingu, hvað væri þá hið heppilega álver? Hvernig má það vera að þessi ágæti hv. þm. sem mér hefur heyrst á undanförnum árum að væri allur opinber rekstur mjög hjartkær og tæki mjög nærri sér þegar hvaða smáfyrirtæki sem er væri einkavætt, virðist nú hafa ástæðu til að halda að opinbert fyrirtæki eins og Landsvirkjun, ætli að fara sér að voða, bara að gamni sínu held ég, að fara að tapa einhverjum tugum milljarða. Af hverju? Er einhver nauð sem rekur það til þess? Hefur þingmaðurinn einhverja ástæðu til að ætla að ekki megi treysta þessu fyrirtæki til þess að gera viðskipti þannig að þau standi á fótunum? Hvaða ástæða er til þess að vantreysta Landsvirkjun til þess? Hefur eitthvað komið fram í þessum skýrslum eða þessum pappírum sem við höfum, sem segir til um að þeir séu ófærir um þetta? Ætlar hv. þm. kannski að ganga í lið með mér og öðrum sem eru mjög þess fýsandi að einkavæða þessa stofnun?