Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Þriðjudaginn 16. nóvember 1999, kl. 14:28:19 (1467)

1999-11-16 14:28:19# 125. lþ. 26.3 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 125. lþ.

[14:28]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ein ástæðan fyrir því að ég held að álver, bygging álvera og rekstur inn í framtíðina sé ekki spennandi kostur fyrir Íslendinga, er sú að einingarnar fara hratt stækkandi í þeim efnum og það stefnir í að slíkur rekstur verði ekkert arðbær nema í risastórum einingum, það stórum að tvö, þrjú, fjögur slík stykki mundu þurrka upp alla lausa raforku í landinu. Eru menn þá tilbúnir til að setja öll eggin í sömu körfu og ráðstafa henni allri í það? Nú þegar er meira en helmingur af raforkumarkaðnum á Íslandi háður verðsveiflum á áli upp og niður. Vilja menn hækka það hlutfall í 3/4 þannig að það sé aðeins 1/4 hluti raforkusölunnar sem er óháður þeim verðsveiflum og menn þurfi að standa undir niðurgreiðslunum ef illa fer?

Ástæðan fyrir því að ég er tortrygginn út í forsendur bæði Landsvirkjunar og fleiri hagspekinga sem hafa reiknað sömu hlutina ofan í okkur aftur og aftur eru borðleggjandi staðreyndir um hve stóriðjan borgar lítið fyrir rafmagnið, eða 88 aura á kwst. á síðasta ári á sama tíma og almenningsveiturnar borga að meðaltali 2,80. Það eru 12,5 mill samkvæmt gömlu einingunni en ég hef séð útreikninga þar sem sagt er að 18--24 mill séu lágmark til þess að nýjar fjárfestingar í virkjunum geti staðið undir sér. Þarna er stórt bil á milli og það er það sem ég tel vera glæfralegt að gera enn samninga um útsölu á rafmagni á lágu verði sem er háð verðsveiflum á heimsmarkaði á áli upp og niður og gera Ísland og þessi opinberu og hálfopinberu fyrirtæki enn háðari um afkomu þeim hlutum en nú þegar er. Það tel ég vera glæfralegt. Ég hélt satt best að segja að hv. þm. hefði ákveðinn skilning á því að það er ekki mjög skynsamlegt að standa þannig að málum. Eru ekki almennir raforkukaupendur á Íslandi að verða svolítið þreyttir á því að borga með stóriðjunni eins og þeir hafa gert og útreikningar hagfræðinga m.a. núna sýna að þeir hafa gert þegar í reynd kemur í ljós að raforkuverðið til stóriðjunnar þyrfti að vera 30, 40, jafnvel upp í 80--100% hærra til þess að dæmið gengi almennilega upp?