Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Þriðjudaginn 16. nóvember 1999, kl. 14:32:01 (1470)

1999-11-16 14:32:01# 125. lþ. 26.3 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 125. lþ.

[14:32]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Það kom fram í máli þingmannsins að orðið hefði grundvallarbreyting á afstöðu almennings til stóriðjumála og virkjanamála á síðustu árum. Í gær voru birtar niðurstöður skoðanakönnunar sem m.a. leiddu í ljós viðhorf til stóriðju. Þar kom fram að 64% landsmanna væru jákvæð í garð stóriðju. Fyrir níu árum voru birtar niðurstöður skoðanakönnunar þar sem spurt var um nýtt álver. Sú spurning var aðeins öðruvísi, það var spurt hverjir styddu nýtt álver. Þá studdu 68% nýtt álver, 68% árið 1990, 64% árið 1999. Þá voru 18% andvígir álveri, í dag eru 15% neikvæð í afstöðu sinni til stóriðju.

Þannig verður ekki dregin sú ályktun að andstæðingum stóriðju á borð við álver hafi fjölgað heldur þvert á móti að andstæðingum hafi fækkað. Ég get ekki fallist á, herra forseti, fullyrðingar um að grundvallarbreyting hafi orðið á viðhorfum almennings hvað þetta varðar.

Hv. þm. hefur réttilega vísað til þess að hann hafi í viðtali í Dagblaðinu í ágúst 1990 sagt að hann mundi aldrei samþykkja álver á Keilisnesi. Það var vegna þess að þingflokkur Alþb. hafði gert samþykkt um málið sem skilyrti stuðning flokksins við álver við að álverið yrði byggt úti á landi. Það kemur fram í viðtölum við þáv. ráðherra samgöngumála, hv. þm. Steingrím J. Sigfússon, þar sem hann rekur þessa skoðun sína og telur Eyjafjörð og Keilisnes óheppilegan kost en bendir á Austurland sem heppilegan landshluta undir nýtt álver.

Nú spyr ég, herra forseti: Getur þingmaðurinn útskýrt fyrir okkur af hverju hann er á móti álveri á Austurlandi fyrst hann var fylgjandi því fyrir nokkrum árum?