Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Þriðjudaginn 16. nóvember 1999, kl. 14:37:25 (1473)

1999-11-16 14:37:25# 125. lþ. 26.3 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 125. lþ.

[14:37]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg hárrétt að eitt af mörgu sem ég hef gagnrýnt stóriðjustefnuna fyrir á undanförnum árum er staðsetning iðjuveranna, það hefur ekkert breyst. Ég sagði það sama þegar ákveðið var að stækka Ísal, þegar ákveðið var að byggja álver á Grundartanga og þegar ákveðið var að auka stórframkvæmdir hér á höfuðborgarsvæðinu. Af sjálfu leiðir vegna þess að ég er byggðastefnumaður. Ég spái því að hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni gangi erfiðlega að sanna það fyrir þjóðinni að ég sé alveg sérstakur fjandmaður og andstæðingur hinna dreifðu byggða. Ætli hér tali nú ekki sá alþingismaður sem kom úr einu afskekktasta byggðarlaginu á landinu og því sem fjærst er Reykjavík af heimabyggðum þeirra sem hér sitja. Á þeim slóðum held ég að það mundi a.m.k. ganga erfiðlega. Ég held að þessar blaðatilvitnanir hv. þm. hafi lítið upp á sig.

Það er alltaf vandasamt að beita skoðanakönnunum og vitna í þær. Ég er alveg sannfærður um að sama fólk og lýsir sig jákvætt stóriðju hefur um leið ýmsa fyrirvara á þeim stuðningi sínum. Það vill að stóriðjan samræmist umhverfismarkmiðum og geti gengið á slíkum forsendum. Út frá þeim forsendum er ekkert að því þó að það sé jákvætt í garð stóriðju í könnunum. Það er eðlilegur hlutur.