Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Þriðjudaginn 16. nóvember 1999, kl. 15:11:14 (1477)

1999-11-16 15:11:14# 125. lþ. 26.3 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, VS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 125. lþ.

[15:11]

Valgerður Sverrisdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, ég leyfi mér að halda því fram að þeir sem ég flokkaði í fjórða hópinn séu með dulbúna aðferð til að eyðileggja þetta mál. Allar upplýsingar sem þarf til þess að taka afstöðu liggja fyrir. Hv. þm. komast ekki hjá því að taka afstöðu til þess hvort þeir vilja þessa framkvæmd eða ekki. Við vitum alveg hvað hún leiðir af sér. Hún leiðir það af sér að Eyjabökkum verður sökkt. En við þekkjum líka jákvæðu þættina sem eru í uppbyggingu á landsbyggðinni og þjóðfélagslegs eðlis. Ég segi: Þeir sem ekki taka afstöðu til málsins og fela sig á bak við það að þetta mál eigi að fara í lögformlegt umhverfismat, þó þeir geri sér jafnframt grein fyrir því að lögum samkvæmt eigi ekki að gera það, þora ekki að taka á málinu. Þeir þora ekki að segja hvað þeir vilja. Það finnst mér ekki sæmandi, alls ekki fyrir heilan stjórnmálaflokk og heldur ekki fyrir einstaka þingmenn, ég tala nú ekki um landsbyggðarþingmenn sem bera það á borð fyrir þjóðina að það að setja málið í lögformlegt umhverfismat bjargi öllu.

Við hv. þm. höfum allar forsendur til að taka afstöðu. Ég vonast til þess að hv. þm. sýni þann manndóm þegar hann kemur hér upp aftur, taki afstöðu í málinu og hætti þessum feluleik.