Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Þriðjudaginn 16. nóvember 1999, kl. 15:17:17 (1481)

1999-11-16 15:17:17# 125. lþ. 26.3 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, VS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 125. lþ.

[15:17]

Valgerður Sverrisdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er nú verst ef þjóðin trúir á eitthvað sem hún skilur ekki, ég verð að byrja á að segja það, því það kom fram í gær að 80% þjóðarinnar veit ekki hvað þetta lögformlega umhverfismat er, eða veit lítið um það. Það sýnir nú fáránleikann í málinu. Ef fólk er jafnvel að skrifa undir í stórum stíl einhverja áskorun til ríkisstjórnar um eitthvað sem það veit ekki hvað er. Það finnst mér alvarlegt og þess vegna var svo sannarlega tími til kominn að málið yrði tekið upp á hv. Alþingi og vonandi mun þessi umræða skila sér að einhverju leyti út í þjóðfélagið.

Ég talaði ekkert um að hv. þm. hefði dulbúna skoðun. Ég talaði um dulbúna aðferð til að eyðileggja málið. Ég held því fram, og ég læt mig ekki með það, að þessi hugmynd, hver sem átti hana --- ég gæti svo sem alveg ímyndað mér að það hefði verið Hjörleifur Guttormsson fyrrv. alþm. en það gæti þess vegna verið hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir --- en að tala fyrir henni á þann veg að málið eigi að fara í lögformlegt umhverfismat er mjög sniðug aðferð til að blekkja. Fólk heldur að verið sé að gera eitthvað ólöglegt með því sem ríkisstjórnin stendur að og verið er að gera. Það er hins vegar allt saman löglegt, og það að setja málið í lögformlegt umhverfismat er aðferð til að dreifa umræðunni og blekkja. Og þessu held ég fram. Hv. þm. veit alveg og ekki síður en ég að stóra málið, stóra umhverfismálið er að sökkva Eyjabökkum og þess vegna getur hv. þm. eins og hver annar tekið afstöðu í málinu. En í fyrri hluta ræðu sinnar talaði hún hve mikilvægt væri að setja málið í hinn lögformlega farveg og síðast í ræðunni sagðist hún vera á móti því að fórna Eyjabökkum. Ég hlustaði á ræðuna.