Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Þriðjudaginn 16. nóvember 1999, kl. 15:25:09 (1486)

1999-11-16 15:25:09# 125. lþ. 26.3 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 125. lþ.

[15:25]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Í fyrsta lagi ræður Alþingi því hvort umhverfismat fer fram því það er Alþingi sem getur sett þau lög sem þarf ef stjórnarmeirihlutinn telur að hann þurfi lög til þess að þetta gerist. Í öðru lagi erum við ekki að fjalla um að nýta vatnsaflið, við erum að fjalla um --- og ágreiningurinn er um það --- hvort fram fari mat á því hvort rétt sé að nota vatnsaflið á þeim stað sem hér er til umræðu við þær aðstæður sem skapast. Og þegar talað er um að fólkið í landinu sé einhverjir fávitar sem viti ekkert hvað það vill og skilji ekki hvað felist í spurningu sem fyrir það er lagt, þá skilur fólk að umhverfismat er tæki sem Alþingi hefur skapað, tæki til að leggja mat á hvort það sé að fórna meiri hagsmunum fyrir minni með því að fara í framkvæmdir á hálendinu. Það er svo einfalt. En að spyrja fólk í smáatriðum hvað felist í umhverfismatinu og leggja síðan dóm á það hvort fólk skilji hvað um var spurt er ósæmilegt, en auðvitað er það pólitík. Það er pólitík sem stjórnarliðarnir hafa rekið hérna grjóthart í dag og ég ber ekki mikla virðingu fyrir því. Að ákveða að það fólk, eins og Samfylkingin sem hér er t.d. að leggja mikla áherslu á að umhverfismat og lög um umhverfismat verði virt til að lagt verði faglegt mat á afleiðingar þessara framkvæmda, sé á móti framförum, á móti því að ungt fólk geti lifað í landinu, á móti því að nokkurs staðar sé virkjað vatnsafl eða álver sé byggt er bara ósæmilegur málflutningur. Og það hefur komið fram, t.d. í málflutningi hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar, að það hefði átt að skoða hvort ekki hefði verið betri kostur fyrir okkur Íslendinga að fara strax í Kárahnúkavirkjun.