Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Þriðjudaginn 16. nóvember 1999, kl. 15:44:17 (1489)

1999-11-16 15:44:17# 125. lþ. 26.3 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, ArnbS
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 125. lþ.

[15:44]

Arnbjörg Sveinsdóttir:

Hæstv. forseti. Það er raunar sérstök staða að við alþingismenn skulum í dag ræða till. til þál. sem lýsir yfir stuðningi við framkvæmd sem var samþykkt hér á Alþingi fyrir 18 árum og verk iðnrh. frá því fyrir rúmum átta árum síðan. Lög um raforkuver, nr. 60/1981, voru lögð fram af þáv. hæstv. iðnrh. Hjörleifi Guttormssyni og samþykkt á Alþingi ágreiningslaust. Leyfi var veitt á grundvelli þeirra laga af þáv. iðnrh. Jóni Sigurðssyni sem sæti átti í þriðja ráðuneyti Steingríms Hermannssonar, m.a. ásamt hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni, þáv. landb.- og samgrh.; hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur, þáv. félmrh. og forseta Íslands, Ólafi Ragnari Grímssyni, þáv. fjmrh.

[15:45]

Árið 1991 var hafist handa um framkvæmdir við Fljótsdalsvirkjun samkvæmt ákvörðun m.a. þessa ágæta fólks sem ég hér nefndi. Það má segja að það hafi verið lán í óláni að frestað var framkvæmdum á þeim tíma vegna þess að ekkert varð af framkvæmdum Atlantal-hópsins. Ef svo hefði ekki verið, hefðum við setið uppi með flutningslínur þvert yfir okkar verðmæta hálendi og þann umhverfisskaða sem af því hefði hlotist. Er það fyrir einhverja gráglettni örlaganna að margt af því fólki sem þá tók ákvarðanir um virkjun Jökulsár í Fljótsdal og stóð fyrir að hefja þær framkvæmdir, skuli nú birtast með helgislepjuyfirbragði og vandlætingu á hæsta stigi yfir því að nú skuli ljúka við þeirra eigin verk. Hv. þm. Sverrir Hermannsson, iðnrh. í ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar á árunum 1983--1986 --- ekki má gleyma honum --- ætlaði nú aldeilis að virkja í Fljótsdal og byggja kísilmálmverksmiðju á Reyðarfirði. (ÖS: Hver?) Það var hv. þm. Sverrir Hermannsson, sem ætlaði að standa að þessu, þáv. iðnrh. Hann ætlaði að éta gleraugun sín ef þetta tækist ekki. (ÖS: Gerði hann það?) Reyðfirðingar segjast ekki hafa séð efndir hans á þeim veisluhöldum. En örlögin hafa nú komið því svo fyrir að hann getur staðið að því að fylgja eftir virkjun í Fljótsdal, þannig er nú komið, og byggingu álvers á Reyðarfirði. Ef hann er maður orða sinna mun hann líklega grípa það tækifæri fegins hendi, þó ekki væri nema til að efna gömul kosningaloforð við Austfirðinga. Ekki trúi ég að hann, herra forseti, verði til þess að grípa á lofti málflutning áróðursmeistara nútímans, maður traustra íhaldsgilda sem þolir hvorki frjálshyggjugaura né uppa nútímans, að hann leggist í gönuhlaup með Styrmi á Mogga. Það er nú ekki líkt þeim þingmanni Austfirðinga sem ég var í her með í þann tíð. Það voru aðrar áherslur sem að við þekktum á Austfjörðum í þá daga.

Hæstv. forseti. Er að undra þó að almenningur á Austfjörðum og almenningur í landinu hafi á öllum þessum tíma bundið nokkrar vonir við að þessi her merkra stjórnmálaforingja meinti eitthvað með öllum þeim áformum sem þeir voru margoft búnir að kynna til sögunnar. Svo sannfærandi voru margir hverjir að fólk var búið að leggja í fjárfestingar og gera áætlanir, miðað við það að þessar framkvæmdir yrðu að veruleika. Og því ekki? Búið var að samþykkja lög og búið var að skrifa undir samninga. Búið var að bjóða út og það voru hafnar framkvæmdir. Allt er þetta nokkuð til þess að styðja yfirlýsingar þeirra merku stjórnmálaforingja sem talað höfðu og lýst ævintýralandi stórframkvæmdanna.

Hæstv. forseti. Sú umræða sem þróast hefur í þjóðfélaginu að undanförnu um virkjun í Fljótsdal og álversframkvæmdir á Reyðarfirði hefur óneitanlega komið okkur Austfirðingum nokkuð á óvart, ekki vegna rómantíkusa sem horfa uppnumdir á bláma himinsins og fegurð fjallanna og gleyma því af og til að það þurfi salt í grautinn, ekki vegna hreintrúaðra náttúruverndarsinna sem horfa uppnumdir á grösin og skordýrin og gleyma því af og til að maðurinn er hluti af náttúrunni og þarf að nýta hana til að komast af ... (Gripið fram í.) Nei, það er vegna þeirra sem við héldum að ætla mætti að væru meðvitaðir stjórnmálaforingjar. Sumir þeirra hafa jafnvel fengið nafnbótina stjórnmálaskörungar. Við héldum að þeir hefðu það hlutverk að sætta sjónarmið og fylgja eftir eigin ákvörðunum. Og hvað höfum við svo séð til þessara tilvitnuðu skörunga? Jú, það helst að þeir hafa farið í hóp þeirra atvinnuáróðursmeistara hagsmunasamtaka af ýmsu tagi sem beita fyrir sig lagasetningu um mat á umhverfisáhrifum sem kom til löngu eftir að lög um Fljótsdalsvirkjun voru sett og framkvæmdir hafnar. Ofan í kaupið er látið að því liggja að núverandi stjórnvöld og stjórn Landsvirkjunar séu að brjóta lög þegar menn eru ekki að gera neitt annað en að fylgja eftir ákvörðunum þessara tilvitnuðu skörunga. En hvað gera skörungarnir? Þeir hvetja til að brotin séu lög á Landsvirkjun með því að afturkalla virkjanaleyfið fyrir Fljótsdalsvirkjun. Menn hafa líka gengið svo langt að segja að það geri nú ekkert til af því að Landsvirkjun sé í opinberri eigu. En, herra forseti, hver á Landsvirkjun? Það er ríkissjóður að hálfu, en Reykjavíkurborg og Akureyri að hálfu. Ætli íbúar Reykjavíkur og íbúar Akureyrar yrðu ýkja glaðir ef fyrirtæki þeirra, Landsvirkjun, yrði fyrir þvílíkum skaða af hendi ríkisins? Stjórn Landsvirkjunar yrði tilneydd til að verja eign íbúa þessara tveggja sveitarfélaga. Hver væri þá staðan, herra forseti? Jú, ekki aðeins yrði ríkið af tekjum sem þessar framkvæmdir hefðu í för með sér, heldur yrðu aðrir skattborgarar þessa lands að borga íbúum þessara tveggja ...

(Forseti (GuðjG): Forseti minnir á að það fer aðeins einn fundur fram hér í salnum og biður hv. þingmenn að virða það og hafa hljóð.)

Herra forseti. Ég var að segja að ef til þessa kæmi þá yrðu skattborgarar þessa lands að borga íbúum þessara tveggja sveitarfélaga skaðabætur fyrir verknaðinn.

Herra forseti. Þeir sem fara fremst í flokki þeirra sem tala um lögformlegt umhverfismat viðurkenna fæstir að þeir séu á móti virkjunum sem þó væri heiðarleg afstaða í sjálfu sér. Sumir viðurkenna að þeir séu ofurlítið á móti Fljótsdalsvirkjun en beita því helst fyrir sig að það þurfi að fást sátt í málinu á milli þeirra sem vilja virkja og hinna sem eru á móti öllum virkjunarframkvæmdum. Og það gerist með því sem þeir kalla lögformlegt umhverfismat.

Eins og ég hef rakið í máli mínu þá er það í raun ólöglegt umhverfismat hvað virkjun í Fljótsdal varðar, eins og það hefði verið gagnvart Sultartangavirkjun, Vatnsfellsvirkjun og fleiri framkvæmdum og síðast en ekki síst Nesjavallavirkjun, en borgarfulltrúar í Reykjavík sáu ekki ástæðu til að biðja um að breyta lögum til þess að lög um mat á umhverfisáhrifum mættu ná til þeirrar framkvæmdar. Ónei, en sumir borgarfulltrúar, þar á meðal borgarstjóri, hafa talað digurbarkalega um að þá málsmeðferð skuli viðhafa varðandi Fljótsdalsvirkjun. Vel á minnst, talsmaður umhverfisvina sem stendur nú fyrir undirskriftasöfnun hér í Reykjavík vegna Fljótsdalsvirkjunar er borgarfulltrúi í Reykjavíkurborg. En hann sér enga ástæðu til þess að krefjast umhverfismats á þeim framkvæmdum sem Reykjavíkurborg og hennar fyrirtæki standa fyrir. Er furða þó maður velti því fyrir sér hvort einhver annarleg sjónarmið gætu hugsanlega legið þarna að baki.

Hæstv. forseti. Ofstopafullir áróðursmeistarar sem hafa hina aðskiljanlegustu hagsmuni að verja, hvort heldur er að fá að skjóta gæs í friði eða safna peningum hjá erlendum umhverfissamtökum, í flokki með uppgjafastjórnmálamönnum ásamt einlægum náttúruverndarsinnum safna nú undirskriftum undir svofelldan texta:

,,Við undirrituð krefjumst þess að stjórnvöld láti fara fram lögformlegt mat á umhverfisáhrifum Fljótsdalsvirkjunar.``

Hæstv. forseti. Samkvæmt könnun sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gerði telja 80% þjóðarinnar sig lítið vita eða ekkert um hvað felst í lögum um mat á umhverfisáhrifum. Nú er ekki stefnt að því að einungis þau 20% sem telja sig vita eitthvað um eða mikið um hvað felst í lögum um mat á umhverfisáhrifum skrifi undir þennan texta. Ónei, stefnan er að hvorki meira né minna en 60 þúsund manns, hæstv. forseti, skrifi þarna undir.

Í sumar hefur verið fjallað mikið um að ýmsir óski eftir svokölluðu lögformlegu umhverfismati. Lítið hefur farið fyrir nánari skýringum á hugtakinu enda notað í umræðunni til þess að ýja að því að eitthvað annað sé ólöglegt. Ekki hef ég trú á að það takist að innræta þjóðinni svo teknókratískt mál sem hér um ræðir á skömmum tíma, þó svo raunverulegur áhugi væri fyrir því.

Hæstv. forseti. Hvað kom fram í skoðanakönnun Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands? Þar kom í meginatriðum þetta fram: Íslendingar eru almennt jákvæðir gagnvart stóriðju. Mikill meiri hluti er hlynntur vatnsaflsvirkjunum, þrátt fyrir að þeim fylgi oft röskun af völdum miðlunarlóna. Helmingur landsmanna er hlynntur álveri í Reyðarfirði og talsverður meiri hluti þeirra sem afstöðu taka er fylgjandi virkjun í Fljótsdal. Stuðningur við stóriðju almennt, álver í Reyðarfirði og virkjun í Fljótsdal er verulegur og mikill í röðum kjósenda Samfylkingarinnar og verulegur í röðum kjósenda Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs. Nær 80% landsmanna vita lítið eða ekkert um hvað felst í lögum um mat á umhverfisáhrifum. Lítill sem enginn munur er á viðhorfum fólks eftir landshlutum.

Hæstv. forseti. Miðað við það hvernig umræðan um Fljótsdalsvirkjun og álver í Reyðarfirði hefur þróast þá er þrátt fyrir allt kærkomið tækifæri að ræða málið í þingsölum. Það er nauðsynlegt að þingmenn geti farið hlutlægt yfir málið og metið það hver fyrir sig. Hér liggja fyrir geysilega vel unnar skýrslur um mat á umhverfi og umhverfisáhrifum beggja þessara framkvæmda. Málið verður síðan unnið í iðnn. Þar munu allir sem áhuga hafa á málinu geta komið athugasemdum sínum á framfæri við nefndina. (Gripið fram í: Með heimsóknum?) Að taka málið inn í þingið er í raun mjög góð leið til þess að ræða það opinskátt með öll rök og alla hugsanlega vitneskju uppi á borðinu. Enginn hefur vefengt fagleg vinnubrögð við þá umhverfismatsskýrslu sem hér liggur fyrir. Okkar bestu vísindamenn hafa lagt hönd á plóg. Verkið er vel unnið og faglega.

Stefna ríkisstjórnarinnar og ríkisstjórnarflokkanna hefur verið mjög skýr. Stefnan hefur verið sú að vinna að því að selja orku þá sem framleidd yrði í Fljótsdal til stóriðju. Það hefur legið skýrt fyrir að ekki yrði haldið áfram með framkvæmdir í Fljótsdal nema raforkusamningar lægju fyrir. Við höfum áður brennt okkur á því að hafa farið of geyst í virkjunarframkvæmdir þannig að ekki hafa legið fyrir öruggir orkusölusamningar. Jafnframt er ljóst að virkjunarframkvæmdir taka langan tíma og krefjast mikils undirbúnings. Undirbúningur Fljótsdalsvirkjunar hefur reyndar tekið óvenjulega langan tíma, enda liggja fyrir bestu rannsóknir sem mögulegar eru á virkjunarsvæðinu.

Hæstv. forseti. Nú gefst þingmönnum enn á ný tækifæri til að halda málstofu um Fljótsdalsvirkjun. Þingnefndir munu vinna málið. Þegar þeirri vinnu er lokið munum við væntanlega komast að því hvaða afstöðu einstakir þingmenn og þingflokkar hafa. Eins og fram kom í umræðu hér í morgun þá er til að mynda talsmaður og þingsflokksformaður Samfylkingarinnar ekki búinn að gera upp hug sinn varðandi Fljótsdalsvirkjun. Kannski er rétt að hafa eftir brýningarorð Smára Geirssonar, foringja sveitarstjórnarmanna á Austurlandi. Hann kemur úr röðum Samfylkingarinnar. Smári segir, með leyfi forseta:

,,Ég held að þingflokkur Samfylkingarinnar og Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs komist ekki hjá því að kanna rækilega þessar niðurstöður þegar þeir búa sig undir umræður á Alþingi vegna þáltill. iðnrh. um framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun. ... Það kann aldrei góðri lukku að stýra ef þingflokkar eru ekki í takti við kjósendur sína og því væri óviturlegt fyrir stjórnarandstöðuna að meta nú ekki stöðu málsins á ný í ljósi nýrra upplýsinga um viðhorf almennings.``