Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Þriðjudaginn 16. nóvember 1999, kl. 16:01:40 (1491)

1999-11-16 16:01:40# 125. lþ. 26.3 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, ArnbS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 125. lþ.

[16:01]

Arnbjörg Sveinsdóttir (andsvar):

Hæstvirtur forseti. Ég biðst innilegrar afsökunar á því ef ég hef ekki hlýtt nægilega vel á mál hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar. Hins vegar hef ég hlýtt á mál flestra annarra hér sem hafa borið mikið lof á skýrslu Landsvirkjunar og hafa gefið þær yfirlýsingar hér að þessi skýrsla væri tæk til þess að verða frummatsskýrsla. Ég heyri það hins vegar á máli hv. þm. núna að hann telur ekki svo vera. En hér hafa mestu sérfræðingar þingsins í umhverfismálum lýst því yfir að þessi skýrsla sé mjög vel tæk til þess. Ég hef heyrt það á mönnum hér að þeir telji svo vera. Ég er þeirrar skoðunar að byggjum við við önnur lög þá mundi þessi skýrsla vera svo sannarlega tæk til þess að vera frummatsskýrsla. Hún er unnin eftir þessum lögum, þeim forskriftum sem sett eru í lögunum.

Ég fór í máli mínu einnig yfir gerðir stjórnmálaforingja og stjórnmálaskörunga fyrri tíma, m.a. þingmanna okkar Austfirðinga. Austfirðingar, þar sem ég þekki nú best til, hafa gert sér ákveðnar væntingar með þann málflutning sem menn hafa haft hér uppi í þingsölum og hafa haft uppi þegar þeir hafa komið til fundar við okkur hér fyrr á tíð, til Austurlands. Og skyldi nú nokkurn undra að menn tækju mark á þessum ágætu mönnum? Finnst hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni einhver undur að menn hlusti á sína stjórnmálaforingja? Ég hélt að það væri okkar verk að ræða við fólkið og bera því boðskapinn. Boðskapur þeirra var þessi: Virkjun og stóriðja.