Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Þriðjudaginn 16. nóvember 1999, kl. 16:28:27 (1499)

1999-11-16 16:28:27# 125. lþ. 26.3 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 125. lþ.

[16:28]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Það var svo sem auðvitað að hv. þm. Ögmundur Jónasson tæki sér til fyrirmyndar formann stjórnmálasamtaka sinna, hv. þm. Steingrím J. Sigfússon. Aðalatriðið og efnisatriðið í þeirri umræðu sem hér fór fram var gagnrýni á ráðherra og einstaka þingmenn stjórnarandstöðunnar sem hér hafa verið að vitna í opinber gögn sem snúa að því þegar einstakir þingmenn hafa haft skoðanir á þessu máli hér í þinginu.

Nú kemur hv. þm., þegar hann hefur nýlega lokið sínu máli eða sleppt orðinu, og ræðst harkalega á einstaka embættismenn sem starfandi eru hjá ríkinu. Ætlar hv. þm. Ögmundur Jónasson að láta taka sig alvarlega í þessari umræðu þegar hann hagar málflutningi sínum með þessum hætti? Í einu orðinu að gagnrýna þá sem hafa verið að vitna í einstaka hv. þm. en í hinu orðinu að fara nákvæmlega sjálfur sömu leið og vera með staðlausa stafi og rakalausar fullyrðingar, algjörlega að tilefnislausu í garð einstakra þingmanna sem hafa verið að vinna að þessu máli?