Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Þriðjudaginn 16. nóvember 1999, kl. 16:29:59 (1500)

1999-11-16 16:29:59# 125. lþ. 26.3 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 125. lþ.

[16:29]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Ég tel hvorki óeðlilegt að gagnrýna embættismenn né stjórnmálamenn. Ég er að vísa í ákveðið samhengi hlutanna og ég var --- ég gat því miður ekki lokið máli mínu hér áðan --- að vísa í það samhengi hlutanna hvað gerðist á milli áranna 1998 og 1999 í afstöðu Ferðamálaráðs. Hvað hafði breyst á þeim tíma? Hvað skyldi hafa breyst? Af hverju var málið svona flókið sem var einfalt ári áður? Það sem hafði breyst var að nýir formenn voru komnir til sögunnar. Hv. þm. Tómas Ingi Olrich var nú orðinn formaður Ferðamálaráðs og hver skyldi hafa verið varaformaður? Hver skyldi það hafa verið? Hann heitir Jón Kristjánsson, hv. þm. og hann er framsóknarmaður, félagi hæstv. iðnrh. Það er þetta samhengi hlutanna sem ég er að draga upp og það er ekki óeðlilegt að á það sé bent þegar málin eru reidd fram á þann hátt sem hér er gert.