Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Þriðjudaginn 16. nóvember 1999, kl. 16:43:09 (1511)

1999-11-16 16:43:09# 125. lþ. 26.3 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 125. lþ.

[16:43]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Þessi umræða á Alþingi í dag hefur á margan hátt verið einkar áhugaverð. Hún hefur sérstaklega verið áhugaverð fyrir mig sem hef fylgst með þessari umræðu í heilan aldarfjórðung og þeim umræðum sem hafa bæði verið á Austurlandi og í þjóðfélaginu í heild, um að virkja fyrir austan, bæði í Fljótsdal og Jökulsá á Dal. Af hverju hafa menn viljað fara í þessa virkjun? Hvað hefur breyst svona mikið? Þessar spurningar standa upp úr í mínum huga eftir að hafa hlustað á þessa umræðu. Það sem fékk mig til þess að hugsa um þetta var sú einfalda staðreynd að orkulindirnar eru ein mikilvægasta auðlind þjóðarinnar, næstmikilvægust á eftir fiskimiðunum, fiskstofnunum, fyrir utan landið og mannauðinn. En hvernig sem við berum þetta saman þá eru orkulindirnar ein mikilvægasta auðlind þjóðarinnar. Við þurfum á þessari auðlind að halda, við höfum talið það a.m.k. fram að þessu til þess að bæta kjör þjóðarinnar, til þess að lífskjör Íslendinga batni, til þess að við getum varið okkar velferðarkerfi og til þess að við getum styrkt okkar velferðarkerfi. Hefur þetta breyst? Nei, þetta hefur ekki breyst. Við höfum talið nauðsynlegt að nota þessa miklu auðlind til að treysta byggð í landinu, til þess að treysta byggð á Austurlandi og Norðurlandi, en sú byggð hefur átt í vök að verjast. Þetta hafa menn talið í öll þau ár sem ég hef fylgst með þessari umræðu. Hefur þetta breyst? Nei, það hefur því miður ekkert breyst vegna þess að fólki hefur fækkað verulega á þessu svæði.

[16:45]

Menn hafa jafnframt talið þetta nauðsynlegt til að breikka grundvöllinn í atvinnulífi okkar. Við höfum almennt talið að við værum of háð fiskveiðum og þyrftum að draga úr því einhæfa atvinnulífi sem við Íslendingar höfum búið við og þá sérstaklega á landsbyggðinni. Hefur þetta eitthvað breyst? Er þetta eitthvað öðruvísi en var fyrir 25 árum? Það held ég ekki. Ég held að það hafi ekkert breyst í þessu sambandi.

Við höfum talið nauðsynlegt að dreifa áhættunni, virkja ekki bara á Tungnaár- og Þjórsársvæði heldur yrði jafnframt að nýta önnur vatnasvæði í landinu, m.a. vegna jarðskjálftahættu, eldgosa og annarrar náttúruvár. Hefur þetta breyst? Nei, þetta hefur ekkert breyst. Enn er sama þörfin og áður til að dreifa þessari áhættu.

Enginn hefur haldið því fram við umræðuna að þessar breytingar eða breytingar á þessu sviði hafi orðið til að menn eigi annaðhvort að hætta við eða þá að setja þessa framkvæmd í þá hættu að e.t.v. verði hætt við hana og ekkert verði úr henni, a.m.k. á næstu 5--10 árum. Nei, það er annað. Það er umræðan um umhverfismál. Menn segja: Það hefur orðið slík breyting í þjóðfélaginu og í heiminum að réttlætanlegt er að við leggjum allt hitt til hliðar og umhverfismálin eigi að ráða úrslitum. Við skulum aðeins líta á það.

Hið mikilvægasta í sannri umhverfisvernd er sjálfbær þróun. Þess vegna höfum við byggt upp nýja fiskveiðistefnu, til þess að bæta umgengnina við fiskveiðiauðlindina, fara betur með hana, nýta hana betur. Þar er talið til fyrirmyndar almennt í heiminum hve vel Íslendingum hefur tekist til. Þar með er ekki sagt að kerfið sé gallalaust og allt sé þar eins og best verður á kosið. Samt hafa Íslendingar komist lengra í þessum efnum en margir aðrir og það er talið til fyrirmyndar.

Í sambandi við sjálfbæra þróun er einnig rætt um að mjög mikilvægt sé að nýta endurnýjanlegar orkulindir í heiminum, vatnið sem fellur til sjávar, vindinn, jarðhitann og aðra þá orku sem er talin endurnýjanleg. Í þessari umræðu hefur komið fram að vindurinn sé miklu betri auðlind og miklu betra að nýta hann. Hver túrbína er væntanlega eitt megavatt. Ekki vildi ég sjá 210 vindrellur uppi við Snæfell (Gripið fram í.) og ekki heldur við Blöndu. Ég vildi ekki sjá 150 vindrellur þar. Ég vil helst ekki sjá þessar vindrellur því að mér finnst þær ljótar og eiga lítið erindi inn í íslenska náttúru. Það er mín skoðun. Hins vegar má vel vera að einhvern tíma komi sá tími að við verðum að nota þessar vindrellur en ljótar eru þær. Þær verða ekki reistar vegna þess að þær séu fallegar, það eitt veit ég. (ÖJ: En Blönduvirkjun, er hún falleg?)

Blönduvirkjun er ekki sérstaklega falleg en hún er heldur ekkert sérstaklega ljót. Rafmagnið frá henni hefur nýst Íslendingum vel og hefur orðið til að skapa mörg atvinnutækifæri fyrir Íslendinga. Það skiptir máli og er grundvöllur velmegunar, hv. þm. Ögmundur Jónasson. Þann málaflokk sem ég hélt að hv. þm. legði langmesta áherslu á. Það er eins og það sé bara ein hlið á því máli og enga auðlind þurfi til að standa undir velmeguninni, hún komi bara úr einhverjum ríkiskassa og ekkert þurfi til að skapa þessi verðmæti. Þetta er hin mikla mótsögn í málflutningnum sem hér hefur verið.

Að mínu mati er alveg ljóst að ef við ætlum að standa undir orðstír okkar varðandi sjálfbæra þróun þá eigum við að nýta vatnsaflið og gufuorkuna. En við eigum að sjálfsögðu að gera það varlega.

Þá segja menn að því er varðar Fljótsdalsvirkjun: Ja, við skulum hætta við að virkja vegna þess að þar eru svo mikil náttúruspjöll. Við skulum búa til þjóðgarð, eins og menn segja, fyrir norðan Vatnajökul. Eitthvað af þessu er nú fyrir austan Vatnajökul að mínu mati. Þjóðgarðurinn á hins vegar að vera á öllu þessu vatnasvæði, þar á sem sagt ekki að virkja. Það á að virkja einhvers staðar annars staðar en alls ekki á Austurlandi. Þessu er ég mjög ósammála. Ég tel að ekkert hafi breyst sem réttlæti það að hætta við þessa virkjun og kasta öllum hinum markmiðunum fyrir róða.

Ég spyr líka: Hvað hefur breyst hjá mörgum hv. þm. sem kallar á að nú eigi að fara fram það sem menn kalla lögformlegt umhverfismat þó að ljóst sé að menn fari að lögum í þessu sambandi? Hvernig stendur t.d. á því að hv. þm. Össur Skarphéðinsson, sem farið hefur mikinn hér í dag, gaf út leyfi fyrir Fljótsdalslínu 20. apríl 1994, línu sem átti að flytja rafmagn frá Fljótsdalsvirkjun norður í land, án þess að færi fram umhverfismat? Hvernig stendur á því að hann vill að það fari fram umhverfismat í dag? Það er alveg ljóst að fyrst hann vildi ekki umhverfismat á þessari línu 1994, og Fljótsdalsvirkjun er forsendan, þá hefur hann gefið, sér sem þáv. umhvrh., þá forsendu að ekki færi fram lögformlegt umhverfismat á virkjuninni sjálfri. Það liggur í augum uppi.

Hv. þm. er nú því miður ekki hér, búinn að yfirgefa húsið, en hann kom hingað í dag, fór mikinn og segir að fram eigi að fara lögformlegt umhverfismat. Það er forsenda alls.

Ætli Eyjabakkalónið verði ekki alveg það sama? Ætli breytingarnar verði svo miklar? Býr það undir þegar hv. þm. Ögmundur Jónasson og hv. þm. Steingrímur Sigfússon vilja lögformlegt umhverfismat á svæðinu en enga virkjun og vilja að ekkert gerist? Fær það hv. þm. Össur Skarphéðinsson að skipta um skoðun? Nei, það er ekki það. Ástæðan er að mikil umræða hefur farið fram um málið og hún hefur verið mjög einhliða. Það hefur haft mikil áhrif. Ég sé að það hefur breytt skoðunum margra þingmanna. Þeir eru allt annarrar skoðunar í dag en áður. Það hefur breytt skoðunum stjórnmálaforingja á borð við fyrrv. þm. Hjörleif Guttormsson. Ég tel að hann hafi verið stjórnmálaforingi. Það hefur breytt skoðunum manna eins og hv. þm. Sverris Hermannssonar sem talaði þannig í dag að ég vissi ekkert hvað um var að vera. Ég man vel þegar sá hv. þm. var að tala um umhverfisvernd á sínum tíma á Austurlandi. Hann sagði þá að engu máli skipti hvar menn væru að leita að marflóm og arfaklóm upp um fjöll og firnindi. Það mundi engu breyta í þessu máli. Ég tel að hv. þm. hafi þá verið að tala um umhverfisvernd og gera lítið úr henni. Mér fannst hann gera allt of lítið úr umhverfisvernd á sínum tíma. Hann ætlaði líka að éta gleraugun sín ef ekki yrði byggð kísilmálmverksmiðja á Austurlandi. Hv. fyrrv. þm. Hjörleifur Guttormsson lét byggja grunn undir þessa kísilmálmverksmiðju.

Halda menn að það sé eitthvað undarlegt þó að Austfirðingar botni ekkert í þessu? Hvernig eiga menn að botna í því að menn skuli skipta um skoðun eins og hér hefur gerst? Hvað hefur gerst? Eru það alþjóðlegir samningar? Nei. (Gripið fram í: Kannski skynsemin.) Kannski skynsemin? Ja, það skyldi þó ekki vera. Það er nú gott að hv. þm. dettur það fyrst í hug. Ég hef hins vegar vissar efasemdir um það að það sé skynsemin. Ég tel skynsamlegt að byggja þessa virkjun. Ég tel að það sé nauðsynlegt. Ég tel að það sé nauðsynlegt fyrir Íslendinga, nauðsynlegt fyrir Austfirðinga og fyrir þjóðarbúið sem heild.

Er ekki lýðræðislegt að leggja þetta stóra mál fyrir Alþingi? Er sýndarmennska að leggja það fyrir Alþingi? Hér hefur verið talað um risavaxið verkefni, sem það er. Það er talin sýndarmennska að leggja það fyrir Alþingi. Hvers vegna telja menn að það sé sýndarmennska? Vegna þess að það stendur til að afgreiða það. Er það fyrst að þetta mál er flutt að staðið hefur til að afgreiða mál á Alþingi? Er ekki fjárlagafrv. flutt í þeim tilgangi að afgreiða það á Alþingi? Þarf einhverjum að koma á óvart að núv. ríkisstjórn vilji fá þetta mál afgreitt og samþykkt?

Mér finnst alveg furðulegt í málflutningi stjórnarandstöðunnar að hún kemur af fjöllum út af því að ríkisstjórnin stefnir að því að afgreiða málið fyrir áramót. Hún telur að það sé vegna þess að Friðrik Sophusson hafi verið þeirrar skoðunar. Að sjálfsögðu er það ekki það sem skiptir máli en forstjóri Landsvirkjunar hefur auðvitað rétt til að hafa skoðun á því. En hann ræður því ekki. Hins vegar er rétt að menn stefna að því að afgreiða þetta mál fyrir jól. Það ætti ekki að koma hv. þingmönnum á óvart.

Herra forseti. Það hefur ekkert breyst í þessu máli. Málið er eins og það var fyrir 25 árum og í reynd miklu betra vegna þess að miklu hefur verið bjargað miðað við þau áform sem voru upphaflega til staðar. Þess vegna má segja að gott sé að málið hafi dregist. En ég tel að meiru verði ekki bjargað með því að draga málið lengur. Það er nauðsynlegt að fara í þetta, forsendurnar eru þær sömu. Rétt er að almenningur er betur meðvitaður um náttúruna en áður, sem betur fer. Það réttlætir hins vegar ekki að hætta að nýta íslenskar auðlindir.