Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Þriðjudaginn 16. nóvember 1999, kl. 17:08:34 (1518)

1999-11-16 17:08:34# 125. lþ. 26.3 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 125. lþ.

[17:08]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Steingrímur Sigfússon segir að aðrar forsendur hafi breyst, m.a. efnahagslegar og þjóðhagslegar forsendur. Það er alveg rétt að það gengur vel á Íslandi í dag, m.a. vegna þess að við fórum í að virkja á Þjórsár- og Tungnaársvæðinu, vegna þess að við byggðum upp stóriðju suðvestanlands en það liggur alveg ljóst fyrir að þetta mun breytast þegar við lítum til næstu ára. Það er skylda þingmanna að líta ekki bara til ársins í árs og næsta árs, það er skylda þeirra að líta til lengri tíma, hver svo sem það er. Þarna hefur ekkert breyst. Þjóðréttarlegar skuldbindingar hafa ekki breyst. Við höfum ekki skrifað undir Kyoto-bókunina þannig við erum ekki búnir að taka á okkur þær skuldbindingar. Að því er varðar villt dýr er engin dýrategund í útrýmingarhættu á þessu svæði svo ég viti til. Ég hef ekki heyrt um það. Þar er mikið af gæs, þetta mun hafa áhrif á gæsina, en gæsin er ekki í neinni útrýmingarhættu. Það er talað um þekkingariðnað, hvaða þekkingariðnað? Hér var fjallað m.a. um Íslenska erfðagreiningu á síðasta þingi, er það ekki þekkingariðnaður? Ég veit ekki betur en að stjórnarandstaðan hafi verið á móti þeim þekkingariðnaði og lagt stein í götu þess þekkingariðnaðar. Hvaða þekkingariðnaður er það sem hv. þm. vill að fari fram á Austurlandi? Mér þætti gaman að heyra það. Ég geri mér ekki grein fyrir því. Og að gera lítið úr því, eins og ég hef heyrt hann gera, að hér sé um aðgerð að ræða sem hafi áhrif á byggðina. Ég skil það ekki. Ég tel að þarna sé verið að velja á milli markmiða. Þeir sem að vilja snúa þróuninni í byggðamálum við hljóta að hugsa sig mjög vel um áður en þeir eru á móti aðgerð eins og þessari. Ég tel það ekki réttlætanlegt út frá umhverfissjónarmiðum, það liggur alveg ljóst fyrir.