Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Þriðjudaginn 16. nóvember 1999, kl. 17:15:28 (1522)

1999-11-16 17:15:28# 125. lþ. 26.3 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 125. lþ.

[17:15]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég var að tala um að dreifa áhættunni í raforkuframleiðslunni vegna jarðskjálftahættu, eldgosahættu og annarrar náttúruvár. Ég stend að sjálfsögðu við það enda held ég að það liggi alveg ljóst fyrir og ætti í sjálfu sér ekkert að koma inn í þetta mál að öðru leyti.

Að því er varðar arðsemi þessara framkvæmda þá treysti ég mér ekki til þess að reikna hana út á þessu stigi. Ég veit ekki hvernig þessi ágæti hagfræðingur getur gert það. Hann gefur sér forsendur sem hann getur ekki sett sér að mínu mati. Ég veit ekki hvaðan hann hefur þessar forsendur.

Ég er hins vegar bjartsýnn á að álframleiðsla í heiminum muni borga sig vegna þess að vaxandi eftirspurn er eftir áli. Það er léttmálmur sem mun skipta miklu máli í bílaframleiðslu m.a. til þess að spara orku og minnka mengun í heiminum. Ég tel því enga ástæðu að vera svartsýnn í þeim efnum. Hins vegar er það svo með alla hluti, hv. þm., og það vitum við báðir að áhætta felst í öllu. Það er áhætta að fara í allar framkvæmdir. Það er áhætta að fara út í þekkingariðnað eða tölvuþjónustu. Það er áhætta að stunda fiskveiðar og það er áhætta að fara út í stóriðju líka.

Ég tel mjög mikilvægt að við reynum að dreifa áhættunni í þjóðfélaginu sem mest þannig að stóriðjan verði stærri þáttur í okkar þjóðarbúskap. Þar með erum við að dreifa áhættunni meira og leggja betri grunn að okkar þjóðfélagi og okkar velferðarkerfi, sem ég veit að hv. þm. er mjög umhugað um og ég virði það.