Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Þriðjudaginn 16. nóvember 1999, kl. 17:56:46 (1533)

1999-11-16 17:56:46# 125. lþ. 26.3 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 125. lþ.

[17:56]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Má vera að ef farið hefði fram mat á umhverfisáhrifum árið 1981 er varðar Þjórsárver þá hefði verið hægt að segja fyrir um hver áhrif Kvíslarveitu yrðu á verin. Og hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson veit það auðvitað vel að verin eru lítils virði án þess vatnsmagns sem hefur flætt um þau. Það er þess vegna sem þau hafa verið verðmæt, það er þess vegna sem þau hafa verið uppspretta lífs fyrir gróður og dýralíf.

Mig langar til að segja í tilefni af orðum hv. þm. varðandi þetta vatnsmagn sem við höfum virkjanlegt í landinu að við erum nú þegar með virkjað vatnsmagn upp á sjö teravattstundir. Við erum með heimild fyrir tæpum þrem teravattstundum í viðbót. Við erum með í umfjöllun 47 teravattstundir. Það eru bara sjö virkjaðar. Landsvirkjun er með á teikniborðum sínum Sultartangavirkjun, Vatnsfellsvirkjun, Búðarhálsvirkjun, Norðlingaöldumiðlun, neðri hluta Þjórsár, Urriðafoss, Kröflusvæðið, Grensdal, við erum með fullt af virkjanakostum í athugun. Það er engin þörf að fara núna í svæðið norðan Vatnajökuls, það er engin lífsnauðsyn. Okkur er hins vegar lífsnauðsyn að hætta að einblína á þessar skammtímalausnir sem eru jafnmáttvana og sú lausn að pissa í skóinn sinn þegar manni er kalt á tánum. Okkur er lífsnauðsyn að fara að þróa með okkur nýjan lífsstíl með nýjum framleiðsluaðferðum, nýju neyslumynstri, lífsstíl sem er gerður til að endast.