Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Þriðjudaginn 16. nóvember 1999, kl. 17:58:31 (1534)

1999-11-16 17:58:31# 125. lþ. 26.3 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 125. lþ.

[17:58]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Það getur vel verið rétt að lífssýn nútímamannsins sé röng, öll þessi sókn okkar eftir lífsgæðum og veraldargæðum á hérvistardögum okkar sé röng. Það getur vel verið. Það má lesa um það í Biblíunni að svo sé.

Ég hef ekki séð hingað til og hef ekki trúað því hingað til og á enn eftir að sjá það að þeir menn sem núna ganga gegn tæknivæðingu Íslands ætli að praktísera það sem þeir predika. Ég trúi því ekki að þeir eigi eftir að stíga þau skref. Hins vegar getur alveg verið rétt að við ættum lesa Biblíuna oftar og ekki sækjast svona hratt eftir lífsgæðunum.

En þeir stjórnarflokkar sem standa að þessari ríkisstjórn hafa gengist undir þau jarðarmen (Gripið fram í.) og heitið því að leggja sig fram um að bæta lífskjör þjóðarinnar og hinna óbornu, nýta þá möguleika sem þetta land á til þess að gera lífskjör vonandi betri en aðrar þjóðir eiga kost á. Um það snýst þetta mál. Þess vegna erum við að virkja. Þess vegna erum við að leita eftir erlendu fjármagni til að reisa hér stóriðju. Þess vegna erum við að reyna að byggja þjóðfélagið upp mjög hratt. Við erum að gera það.

Svo kann það allt að vera tálsýn. Það má vera. En við erum að vinna að þessari uppbyggingu. Við höfum heitið því við allar kosningar við alla kjósendur að við skyldum standa fast og vel að því og við vinnum að því í fullri alvöru.