Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Þriðjudaginn 16. nóvember 1999, kl. 18:00:33 (1535)

1999-11-16 18:00:33# 125. lþ. 26.3 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 125. lþ.

[18:00]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Til umræðu er till. til þál. um framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun. Á grundvelli skýrslu Landsvirkjunar um umhverfisáhrif Fljótsdalsvirkjunar, greinargerðar Orkustofnunar um orkuöflun fyrir álver í Reyðarfirði, skýrslu Þjóðhagsstofnunar um þjóðhagsleg áhrif álvers í Reyðarfirði og skýrslu Nýsis hf. um athugun á samfélagslegum áhrifum álversins, viðkomandi laga og samninga ásamt viljayfirlýsingu ríkisstjórnar Íslands, Landsvirkjunar og Hydro Aluminium leggur hæstv. iðnrh. til að hv. þingmenn afgreiði þáltill. --- núna fyrir jól.

Fylgiskjölin eru töluverð að umfangi og gefa tilefni til að fjalla í fyrsta skipti heildstætt um umhverfisáhrif stórvirkjana og stóriðjustefnu ríkisstjórnarinnar, þ.e. áframhaldandi byggingu og rekstur álvera, í þessu tilfelli risaálbræðslu á okkar mælikvarða og þó leitað væri til nálægra landa.

Í þinginu, í umhvn. og iðnn., eru til afgreiðslu þrjár tillögur sem hefðu átt að fá fulla afgreiðslu áður en þáltill. sem þessi kæmi fram. Þær þáltill. eru um mat á umhverfisáhrifum Fljótsdalsvirkjunar, um sjálfbæra orkustefnu og stofnun Snæfellsþjóðgarðs. Ég hvet hv. formenn umhv.- og iðnn. að ljúka vinnu í nefndunum og koma þessum þál. hingað til afgreiðslu inn á þingið sem allra fyrst. Það er því alveg ljóst hver stefna Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs er varðandi svæðið sem ætlað er undir uppistöðulón. Stefna Vinstri hreyfingarinnar --- græns framboðs er skýr hvað varðar nýtingu landsvæðis norðan Vatnajökuls í kringum Snæfell. Við viljum stofna Snæfellsþjóðgarð og nýta svæðið Austurlandi til framdráttar. Því miður erum við ekki einráð á þessu þingi og höfum ekki vald til að hafna stóriðjustefnu ríkisstjórnarinnar. Því viljum við að farið verði með gát og að Fljótsdalsvirkjun og þær framkvæmdir allar fari eftir lögum um mat á umhverfisáhrifum eins og þau liggja fyrir.

Hávær mótmæli hafa komið fram vegna þeirra vinnubragða sem viðhafa á við undirbúning Fljótsdalsvirkjunar. Hæstv. iðnrh. og umhvrh. vísa til núgildandi laga um mat á umhverfisáhrifum og túlka þau stíft svo ekkert fái tafið virkjanaframkvæmdir. Þó hafa komið fram lögfræðiálit sem draga í efa gildi laganna, almennt og gagnvart Fljótsdalsvirkjun.

Þáltill. þessi er lögð fram nú til að knýja fram vilja hv. Alþingis til að hefja framkvæmdir við Fljótsdalsvirkjun án þess að undirbúa svo stórfellt mannvirki og umhverfisröskun --- öllu nær væri að segja umhverfisspjöll --- með nútímavinnubrögðum. Hæstv. iðnrh. telur að líta eigi á framkvæmdirnar allar í einni heild en á sama tíma slítur hæstv. ráðherra umfjöllunina úr samhengi með því að leggja fram þáltill. sem tekur aðeins á einum þætti málsins.

Lögin um mat á umhverfisáhrifum, nr. 63/1993, eru ekki gallalaus en þó bestu leiðbeiningar sem við höfum í dag til að ná fram sátt um þær framkvæmdir sem hafa varanleg áhrif á umhverfið. Endurskoðun laganna hefur dregist allt of lengi og því fer ekki hjá því að maður hugsi til þess hvort það sé tilviljun eða hluti af því ferli að koma Fljótsdalsvirkjun fram hjá mati á umhverfisáhrifum. Hæstv. umhvrh. hefur boðað að endurskoðað frv. til laga um mat á umhverfisáhrifum verði lagt fram á þessu þingi. Er það tilviljun eða hluti af sama ferli að nýtt frv. kemur ekki fram fyrr en eftir að þessi þáltill. er lögð fram af hæstv. iðnrh.?

Í grg. með þáltill. kemur fram að tillagan fari til umfjöllunar í iðnn. sem kallað geti eftir umsögnum annarra nefnda þingsins og umsögnum frá aðilum utan Alþingis. Á þennan hátt telst tryggt að almenningi gefist kostur á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri hjá þingnefndinni við hina þinglegu meðferð málsins.

Hvernig á þingið að fara með umsagnir eða tillögur frá almenningi þar sem hugsanlega kæmu fram tillögur um breytingar á virkjunarframkvæmdum, svo sem á uppistöðulónum eða öðru sem snertir umfang framkvæmdanna, umhverfisvernd og mannlíf allt á Austurlandi? Er ekki Alþingi að gera sig að einni allsherjaryfirskipulagsnefnd með þessum vinnubrögðum?

Eftir að ljóst varð að hlutur Norsk Hydro er ekki áætlaður nema um 20% af kostnaði við álverið þá er enn erfiðara að skilja hvers vegna framkvæmdirnar fari ekki allar í þann farveg sem lögin um mat á umhverfisáhrifum segja til um. Liggur okkur svona mikið á? Hvað er eitt ár í svo mikilvægu máli eða sá tími sem þarf til að fara með allar framkvæmdirnar í mat á umhverfisáhrifum?

Því miður telja margir framkvæmdaaðilar og þeir sem eru hlynntir stórframkvæmdum á borð við Fljótsdalsvirkjun og byggingu álvers, sem verður nær þrisvar sinnum stærra en álverið í Straumsvík, að mat á umhverfisáhrifum sé kæruferli og eingöngu til að tefja fyrir framkvæmdum. Þessi hugsun verður að breytast og gerir það vonandi með endurskoðun laganna. Markmið laganna getur aldrei verið að tefja heldur að vinna að þeim rannsóknum sem nauðsynlegar eru taldar til að geta fyrirbyggt röskun í lífríkinu eða dregið eins mikið úr þeirri röskun sem framkvæmdir valda og kostur er.

Oft þarf að leita fleiri valkosta en þeirra sem upphaflega voru lagðir fram sem tillaga framkvæmdaaðilans. Tillögur um vatnsaflsvirkjanir norðan Vatnajökuls hafa tekið miklum og mörgum breytingum frá því að fyrstu hugmyndirnar um virkjun á þessu svæði komu fram. Er sá kostur sem er nú á teikniborðinu sá eini rétti? Hvað með þá ábendingu að hækka megi uppistöðulónið á Eyjabökkum án þess að stækka það svo nokkru nemi að flatarmáli og fá þannig umframorku sem þarf til að fullnægja allri orkuþörf fyrsta áfanga og 120 þús. tonna álvers á Reyðarfirði í stað þess að sækja þá orku sem upp á vantar í gufuaflsstöð í Bjarnarflagi með tilheyrandi raforkulínu? Er þessi virkjanamáti, að fara í tvær virkjanir í stað einnar, eingöngu til þess að halda sig innan virkjanaleyfisins svo ekki þurfi að fara með virkjunina í mat á umhverfisáhrifum? Er verið að fórna betri virkjanakosti til að hraða framkvæmdum? Ef taka á Eyjabakkana undir lón þá skiptir ekki öllu hvort lónið yrði örlítið stærra en áætlað er í dag.

En það er engin stórvirkjun án stóriðju. Vatnsorkuver á Austurlandi og álver á Reyðarfirði eru samtengd og bera nafnið Noral-verkefnið. Nú stendur yfir mat á umhverfisáhrifum 480 þús. tonna álvers á Reyðarfirði, álvers sem í fullri stærð er áætlað þrisvar sinnum stærra en álverið í Straumsvík er í dag. Umsagnafresturinn rennur út nk. föstudag. Matið á að vera unnið samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum og skal framkvæmdaaðili því sjá um slíkt mat. En framkvæmdaaðili álversins er enn ekki til. Samningsferlið er í gangi og lögformlegur framkvæmdaaðili verður ekki til nema samningar náist milli hagsmunaaðila, þ.e. iðn.- og viðskrn. fyrir hönd ríkisstjórnarinnar, Landsvirkjunar og Hydro Aluminum, m.a. um raforkusöluna. Aðrir hagsmunaaðilar hafa því tekið að sér að sjá um gerð frummatsskýrslu fyrir mat á umhverfisáhrifum álversins.

Eignarhaldsfélagið Hraun kemur fram fyrir óstofnað hlutfélag. Mér er til efs að þessi vinnubrögð standist lög um mat á umhverfisáhrifum því að eignarhaldsfélagið er ekki framkvæmdaaðli. Því er eðlileg krafa að umsagnarfresturinn verði framlengdur þangað til framkvæmdaaðili væntanlegs álvers leggur fram frummatsskýrsluna. Þennan tíma ætti að nota til að vinna að gerð frummatsskýrslu um raflínur og önnur mannvirki sem tengjast Noral-verkefninu og leggja allar framkvæmdirnar í mat á umhverfisáhrifum samtímis.

Eins og málin standa í dag getur almenningur og hagsmunaaðilar komið að athugasemdum til skipulagsstjóra vegna byggingar og reksturs 480 þús. tonna álvers á Reyðarfirði af hvaða toga sem er. Fólk getur haft áhyggjur af mengun frá álverinu, stærð álversins, áhrifum á aðra atvinnu á svæðinu og félagslega þróun svo eitthvað sé nefnt. Fresturinn til að skila inn athugasemdum rennur út nk. föstudag eins og ég sagði áðan, ef ekki kemur til framlenging sem ég vona svo sannarlega að verði þó ekki væri nema vegna þess að reynst hefur mjög erfitt að komast að upplýsingum um frummatsskýrsluna.

Fullbyggt verður raforkuþörf álversins allt að 7 teravattstundir eða svipað og öll raforkuframleiðsla í landinu í dag. Þá verða um 3/4 hlutar raforkunnar bundnir álframleiðslu. 480 þús. tonna álver bindur okkur til áframhaldandi virkjana, m.a. við Kárahnúka og á fleiri stöðum. Hefur það verið skoðað í fullri alvöru hvort það sé áhættunnar virði, að binda svo stóran hluta raforkuframleiðslunnar í einni sveiflukenndri atvinnugrein? Ef hæstv. ríkisstjórn er sannfærð um að halda verði áfram að efla stóriðju, að umhverfissjónarmið verði að víkja og að stóriðja skili í raun þeim tekjum í þjóðarbúið sem fram kemur í þjóðhagsreikningum, væri þá a.m.k. ekki öruggara að virkja fyrir annað en álver?

Stóriðjustefnunni er hér stillt upp sem byggðamáli. Því eru þeir sem mótmæla núverandi áformum um 480 þús. tonna risaálver á Reyðarfirði sagðir á móti jákvæðri byggðaþróun á Austurlandi. Þeirra er þá ábyrgðin á því að fólksfækkunin haldi áfram á Austurlandi, að Austurland verði að næstu Hornströndum. Mér finnst þetta mjög svo óréttmætur málflutningur. Það eru til aðrir kostir til að efla byggð og mannlíf á Austurlandi. Það eru jafngildir kostir að vilja minni virkjanir sem kalla á minni fyrirtæki til orkunotkunar en þá stóriðju sem allt er bundið við.

Okkur sem viljum fara aðrar leiðir en stóriðjuleiðina er núið því um nasir að við viljum bara eitthvað annað. Auðvitað hef ég ekki uppi í erminni fyrirtæki sem ég gæti sett á stofn og hafið gætu framleiðslu eða störf á næstunni, enda er það ekki mitt hlutverk. Hins vegar er hægt að breyta um stefnu, þ.e. að leggja áherslu á að gera nýjum fyrirtækjum, nýjum atvinnutækifærum, hægara um að komast á legg með því að leggja grunn fyrir þann rekstur. Það kemur m.a. fram í þáltill. okkar í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði um aðgerðir í byggðamálum. Ég óska eftir því að hæstv. utanrrh. lesi þá þáltill. sem hér liggur fyrir frá okkur og hætti að tala um að við viljum bara eitthvað annað. Það eru mjög skýrar áherslur sem eru í tillögum okkar, almenns eðlis til að leggja grunn fyrir atvinnustarfsemi á landsbyggðinni og styrkja búsetu með margvíslegum hætti.