Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Þriðjudaginn 16. nóvember 1999, kl. 18:31:32 (1537)

1999-11-16 18:31:32# 125. lþ. 26.3 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 125. lþ.

[18:31]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég verð að segja það að dapurlegt er til þess að vita að hv. þm. Jón Kristjánsson skuli koma í ræðustól og tala austur og vestur án þess að hafa fylgst með umræðunni í dag, án þess að hafa forsendur til að segja þá hluti sem hann segir.

Sáttarhöndin, sem talað var um í dag, hefur verið á lofti og hún er hönd hæstv. iðnrh. Það er hæstv. iðnrh. sem hefur boðið sættir í dag með því að leggja fram þá þáltill. sem er til umræðu. Það er bara þannig, hv. þm., --- ég hélt að þið væruð í sama flokki, þú og hæstv. iðnrh. --- það er sáttarhöndin sem hefur verið talað um í allan dag. Í útvarpsfréttum kl. átta í morgun vöknuðu menn við það að hæstv. iðnrh. rétti fram þessa sáttarhönd í einhverju erfiðasta deilumáli sem íslenska þjóðin hefur staðið frammi fyrir í áratugi. Sáttarhöndin sem Framsfl. boðaði í kosningabaráttunni er nú á lofti.

Virkjanir á Þjórsár- og Tungnaársvæðinu eru staðreynd. Þær eru umfangsmiklar, þar er afskaplega mikið vatnsmagn sem enn þá er óvirkjað og nýtanlegt. Það er eðlilegt að krefjast þess að þar verði haldið áfram að virkja ef við komum okkur saman um að við þurfum meiri raforku. Það er eðlilegt að tala frekar um auknar virkjanir á Þjórsár- og Tungnaársvæðinu en að fara út í að raska nánast ósnortnu landi norðan Vatnajökuls sem er svo stórt að ósnortin víðerni af þessari stærðargráðu er hvergi að finna í Vestur-Evrópu lengur.