Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Þriðjudaginn 16. nóvember 1999, kl. 19:54:24 (1546)

1999-11-16 19:54:24# 125. lþ. 26.3 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 125. lþ.

[19:54]

Einar K. Guðfinnsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Þá liggur a.m.k. eitt fyrir af hálfu talsmanns Samfylkingarinnar. Hún segir að það hafi verið réttmæt gagnrýni sem var sett fram á lagningu háspennulína yfir hálendið, en upplýst hefur verið í þessari umræðu að hæstv. þáv. umhvrh. Össur Skarphéðinsson hafi heimilað að yrði lagðar. Þetta er út af fyrir sig merkileg játning.

Hins vegar fannst mér vanta töluvert á að hv. þm. gerði nægjanlega vel grein fyrir þessum aðdraganda málsins. Ég vakti athygli á því í ræðu minni fyrr í kvöld að það hefðu einmitt verið þingmenn Alþfl. í Reykjaneskjördæmi sem börðust hvað harðast af eðlilegum ástæðum fyrir því að reist yrði álver á Keilisnesi og forsenda þess máls var að fara í Fljótsdalsvirkjun. Forsendan var Fljótsdalsvirkjun. Nú segir hv. þm. að hún hafi verið fegin því að ekki varð af því að reist yrði álver á Keilsnesi og að virkjunin yrði þar með sett í gagnið. Þetta hefði mér fundist fróðlegt og athyglisvert fyrir þingmenn að heyra á sínum tíma þegar hv. þm. var í hópi þeirra sem börðust fyrir þessum framkvæmdum. Ég held að kjósendur hv. þm. á Suðurnesjum og í Reykjaneskjördæmi sem m.a. flykktu sér um hana á sínum tíma vegna einarðrar baráttu hennar og félaga hennar fyrir þessari virkjun og fyrir álverinu á Keilisnesi, eigi eftir að klóra sér í hausnum a.m.k. yfir þessum óvæntu játningum sem koma nú að kvöldlagi allt í einu mörgum árum eftir að málinu lauk með því að ákveðið var að falla frá álverinu í Keilisnesi sem hv. þm. var sérstakur baráttumaður fyrir.

Það er undarlegt að vita til þess að slíkar játningar komi á síðkvöldum í máli sem var höfuðbaráttumál hv. þm. og átti sinn þátt í því að hv. þm. fór þing aftur.