Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Þriðjudaginn 16. nóvember 1999, kl. 20:28:52 (1558)

1999-11-16 20:28:52# 125. lþ. 26.3 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 125. lþ.

[20:28]

Jón Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég er farinn að skilja þjáningar Samfylkingarinnar í þessu máli enda á hún erfiða fortíð og það heyrðist á ræðu hv. síðasta ræðumanns. En það var eitt eða tvö atriði sem ég vildi koma að sem kom fram í ræðu hennar, það var um arðsemi álversins.

Mér finnst það mjög hæpinn málflutningur þegar vitnað er í greinar, þó að þær séu eftir hagfræðinga, sem gefa sér forsendur fyrir fram og taka lægsta verð sem þeir finna og reikna út frá því og reikna dæmi þar sem forsendurnar vantar vegna þess að ekki er búið að semja um orkuverðið. Það er dæmi hvernig ríkissjónvarpið tekur á málinu að grein þessa hagfræðings var fyrsta frétt í ríkissjónvarpinu eitt kvöldið. Hún var ofar en allar aðrar heimsfréttir, grein sem er diktuð upp með forsendum sem eru ekki fyrir hendi.

Síðan voru náttúrlega mörg önnur atriði eins og byggðaþáttur málsins. Menn draga stórlega í efa að þetta sé nokkurt byggðamál. Ég lít reyndar á þetta númer eitt sem landsmál, númer tvö að byggðaþátturinn kemur til viðbótar. Síðan geta menn talað um það alveg endalaust. En staðreyndin er sú að hingað til hafa öll stórfyrirtæki verið staðsett á þessu landshorni og ef það er byggðastefna þá veit ég ekki hvað byggðastefna er. Ef það er ekki byggðastefna að brjóta blað í þessu efni og koma þessu fyrirtækjum út fyrir suðvesturhornið, þá veit ég ekki hvað byggðastefna er.

Menn geta svo flutt ótal tillögur um byggðamál og barist á móti þessu máli.