Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Þriðjudaginn 16. nóvember 1999, kl. 20:50:42 (1563)

1999-11-16 20:50:42# 125. lþ. 26.3 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 125. lþ.

[20:50]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Mér fannst hv. ræðumaður hafa tekið þau ,,vísindi`` sem fyrir menn er verið að leggja með þessum þykku bunkum, ákaflega fyrirvaralítið, verð ég að segja. Þegar vitnað er t.d. í hver líkleg áhrif af þessari fjölgun hefðbundinna karlastarfa á Austurlandi kunni að verða, þá er kannski rétt að hafa í huga stöðuna einmitt í þeim efnum í landshluta þar sem akkúrat ekki skortir slík störf heldur þvert á móti vantar vinnuafl. Ekki síst vantar iðnmennað fólk til Austurlands, því miður, og konur hafa flutt úr fjórðungnum. Er álver líklegasta beitan fyrir það fólk til að flytja til baka í þennan byggðahluta?

Varðandi byggðaáhrifin að öðru leyti held ég að menn ættu að lesa mat þróunarsviðs Byggðastofnunar sem er fullt af fyrirvörum og er í raun upptalning á því sem ekki hefur verið rannsakað og skoðað en þurfi að greina áður en hægt verður að segja nokkuð marktækt um það hver líkleg áhrif verði. Það eru hér a.m.k., herra forseti, margir fyrirvarar sem rétt er að muna eftir áður en við leggjum trúnað bara á það jákvæða sem gæti gerst, gott og vel, en er ekki trygging fyrir að verði og er ekki í hendi.

Varðandi þjóðhagslegu forsendurnar þá hef ég undrast það að í öllum tilvitnunum í Þjóðhagsstofnun hafa menn alveg sleppt því að nefna sjálfa grundvallarfyrirvarana í inngangi að skýrslu Þjóðhagsstofnunar. Hverjir eru þeir? Það stendur, með leyfi forseta:

,,Það ber að taka fram að hér er ekki um mat á rekstrarlegri né heldur þjóðhagslegri arðsemi þessara verkefna að ræða, t.d. er ekki lagt mat á hagnað af orkusölu til viðkomandi stóriðjufyrirtækja og ekki er tekið tillit til kostnaðar vegna umhverfisáhrifa.``

Það eina sem Þjóðhagsstofnun hefur metið eru líkleg áhrif af þessari innspýtingu fjármagns til skamms tíma litið inn í hagkerfið, ekkert annað. Menn verða því að fara varlega í að vitna í þessar stofnanir og sleppa því svo að lesa þá fyrirvara sem þær sjálfar setja.