Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Þriðjudaginn 16. nóvember 1999, kl. 20:55:10 (1565)

1999-11-16 20:55:10# 125. lþ. 26.3 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 125. lþ.

[20:55]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég hef, held ég, í öllum þessum umræðum, skrifum og öðru aldrei látið mér detta það í hug að neita því að framkvæmdir af þessari stærðargráðu hafi tímabundin staðbundin áhrif. Það er auðvitað alveg ljóst. Það liggur alveg í hlutarins eðli og reynslan annars staðar af landinu sýnir það.

Það er miklu meira álitamál hvað situr eftir þegar frá líður og hvort þau jákvæðu áhrif og margfeldisáhrif til lengri tíma litið skapist sem oft er sagt við okkur að verði. Hvað eru mikil umsvif eftir á Norðurl. v. vegna Blönduvirkjunar og framkvæmdanna sem hún skapaði tímabundið í fjórðungnum? Þau eru ekki mjög mikil. (Gripið fram í: Það vantar álver.) Þá geta menn sagt að það vanti álver.

Ég vil taka það fram að ég skil þá forustumenn Austfirðinga ósköp vel sem gengnir eru upp að hnjám í sinni erfiðu varðstöðu í byggðamálum og ég skil að þeir vilji trúa öllu því góða sem haldið er að þeim í tengslum við þetta mál. Það er mannlegt og það er eðlilegt þegar menn eru í erfiðri stöðu eins og þeir hafa verið, að trúa því að þetta geti gerst. En er það ekki dálítið vegna þess líka, herra forseti, að málinu hefur verið stillt þannig upp að það sé þetta eða ekkert, að það sé álver eða dauði? Þannig er málflutningurinn þó að menn reyni að segja annað. Þegar verið er að ráðast á þá sem hafa uppi varnaðarorð og gagnrýna, hvað er þá sagt? ,,Ef þið viljið ekki þetta, hvað þá?`` Með gagnályktun: Álver eða ekkert. Það er þannig. Þetta eru nauðhyggjurök manna sem eru sjálfir hugmyndalausir og geldir og það er auðvitað ríkisstjórnin fyrst og fremst. Hvað hefur hún haft fram að færa uppbyggilegt í byggðamálum á undanförnum árum sem hefur skilað einhverjum árangri? Nú ætlar hún að kaupa sér fjarvistarsönnun frá eigin aumingjaskap í byggðamálum með því að selja mönnum þetta sem eitthvert innlegg í almennan atvinnu- og byggðavanda landsbyggðarinnar. Það er bara ekki þannig. Þannig ganga hlutirnir ekki fyrir sig. Ég held að menn eigi að horfast í augu við þetta. Er líka hægt að nálgast umræðuna þannig að bjóða bara upp á eitthvað og segja við þá sem gagnrýna: ,,Ef ekki þetta, hvað þá? Hvað vilt þú þá?``