Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Þriðjudaginn 16. nóvember 1999, kl. 20:59:20 (1567)

1999-11-16 20:59:20# 125. lþ. 26.3 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, EMS
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 125. lþ.

[20:59]

Einar Már Sigurðarson:

Herra forseti. Við ræðum á þessum degi sérstakt en merkilegt mál. Hér liggur fyrir till. til þál. um framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun. Það er eðlilegt að ýmsir velti því fyrir sér hvaða tilgangi það þjónar að leggja slíka þáltill. fyrir Alþingi. Fyrir því hafa verið færð, að mínu mati, fullgild rök að í raun sé þessi þáltill. óþörf. Fyrir liggja allar þær heimildir sem þörf er á til þess að halda áfram framkvæmdum við Fljótsdalsvirkjun.

[21:00]

Hæstv. iðnrh. hefur fært fyrir því rök að með framlagningu tillögunnar sé verið að koma til móts við þá umræðu sem átt hefur sér stað í samfélaginu. Á bls. 2 í grg. með þáltill. segir, með leyfi forseta: ,,Þá er og á þennan hátt tryggð aðkoma almennings að málinu því að almenningi gefst nú kostur á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri við þingnefndina við hina þinglegu meðferð málsins.``

Hér er hreyft mikilvægu máli sem mjög hefur verið haldið á lofti af hjá þeim sem vilja fara aðrar leiðir í meðferð þessa máls. Ég vil í þessu sambandi rifja upp ummæli fyrrv. umhvrh. frá 11. júní 1998. Hann lýsti þeirri skoðun sinni að Fljótsdalsvirkjun færi í farveg þann sem lög um mat á umhverfisáhrifum gera ráð fyrir.

Á þessu stigi vil ég lýsa því yfir að þann dag var ég sammála fyrrv. umhvrh. Ég tel að ef ríkisstjórnin hefði hlýtt á umhvrh. sinn þá hefði verið möguleiki á því að ná samkomulagi við Landsvirkjun um að fara þá leið. Því miður var það ekki gert og það hefur valdið því að ýmsir virkjunarandstæðingar hafa nýtt stöðuna sem komið hefur upp í framhaldinu.

Stjórnvöld bera að mínu viti töluverða ábyrgð á því hvernig þetta mál hefur þróast. Stjórnvöld hafa gert nokkur mistök eins og þau sem ég nefndi áðan, að hlusta ekki á fyrrv. umhvrh. Þess vegna hefur virkjunarandstæðingum m.a. gefist tækifæri til að nota orðalag sem virkar býsna sakleysislega og hljómar sanngjarnt. Þeir tala um að virkjunin eigi að fara í lögformlegt umhverfismat. Hver vill ekki fara að lögum?

Í þessu samhengi er rétt að rifja upp niðurstöðu úr skoðanakönnun sem kynnt var í gær. Þar kemur m.a. kemur fram, varðandi hið fræga orðalag ,,lögformlegt umhverfismat`` að nær 80% landsmanna vita lítið eða ekkert um hvað felst í lögum um mat á umhverfisáhrifum. Hvað segir þetta? Jú, þetta segir að fólk, sem m.a. tekur nú þátt í einum þætti þeirrar miklu leiksýningar sem verið hefur í gangi nú um allt of langan tíma, þ.e. sérkennilegri undirskriftasöfnun sem nú stendur yfir, virðist skrifa undir eitthvað sem a.m.k. ekki allir eru algerlega með á hreinu hvað þýðir.

Ég sagði að þetta væri merkileg og á margan hátt sérstök undirskriftasöfnun. Í því sambandi bendi ég á að nú er farin nokkuð nýstárleg leið í að safna nöfnum. M.a. er boðið upp á að hringja í ákveðið símanúmer og pikka síðan inn kennitölur. Þetta minnir nokkuð á ýmsar kennitölusafnanir sem fram hafa farið en í blaðaviðtali, þegar framkvæmdastjóri söfnunarinnar er spurður út í þetta, segir hann m.a. að kennitöluaðferðin við undirskriftirnar sé ekkert tortryggileg. Hann bætir við, með leyfi forseta:

,,Öll svona undirskriftasöfnun sem staðið hefur verið fyrir hér á landi, Varið land þar með talið, hefur verið óvarin fyrir möguleika á misnotkun. Það er ekkert sem kemur í veg fyrir að maður fari út í búð og skrifi þar nafn og heimilisfang annars manns eða jafnvel skáldi upp nafn, heimilisfang og kennitölu. Þannig hefur það alltaf verið. Það eru bara hinar lögformlegu kosningar þar sem hvert atkvæði er skoðað sem geta talist 100% öruggar. Þess vegna er lítill munur á því að stimpla inn kennitölu og að fara út í búð og skrifa eitthvert nafn á lista.``

Hér talar framkvæmdastjóri söfnunarinnar og skilji nú hver á sinn hátt. Taki nú hver mark á söfnuninni sem vill. Ábyrgð þeirra sem fyrir henni standa, í ljósi þeirrar niðurstöðu sem fram kom í skoðanakönnuninni sem ég vitnaði til áðan, er að sjálfsögðu mikil. Því fylgir mikil ábyrgð að beita þrýstingi til að láta fólk skrifa undir það sem það veit ekki hvað þýðir.

Ég sagði áðan að ég hefði verið sammála fyrrv. umhvrh. þann 11. júní 1998 þegar hann lýsti vilja sínum til að Fljótsdalsvirkjun færi í mat á umhverfisáhrifum. Ýmsir fleiri voru þeirrar skoðunar og ég vil í því sambandi benda á bæjarstjórn Austur-Héraðs. Í fylgigögnum með þáltill. kemur m.a. fram að 6. október 1998 hafi sveitarstjórn Austur-Héraðs samþykkt eftirfarandi:

,,Sveitarstjórn Austur-Héraðs telur nauðsynlegt að fram fari lögformlegt mat á umhverfisáhrifum Fljótsdalsvirkjunar.``

Síðan hefur ýmislegt gerst og hin sama sveitarstjórn bókaði síðar eftirfarandi: ,,Bæjarstjórn lýsir stuðningi sínum við virkjum norðan Vatnajökuls enda verði orkan nýtt til uppbyggingar atvinnulífs á Austurlandi.`` Hér hefur augljóslega orðið breyting á, enda ekki skrýtið vegna þess að margt breytist á skemmri tíma en þarna leið á milli.

Ég vil víkja aftur að skoðanakönnun sem kynnt var í gær og hefur að því er virðist komið nokkrum á óvart. Þar voru meginniðurstöður þær að Íslendingar eru almennt jákvæðir gagnvart stóriðju. Í öðru lagi er mikill meiri hluti hlynntur vatnsaflsvirkjunum þrátt fyrir að þeim fylgi oft röskun af völdum miðlunarlóna. Helmingur landsmanna er hlynntur álveri í Reyðarfirði og meiri hluti þeirra sem afstöðu taka er fylgjandi virkjun í Fljótsdal. Stuðningur við stóriðju almennt, álver í Reyðarfirði og virkjun í Fljótsdal, er verulegur eða mikill í röðum kjósenda Samfylkingarinnar. Þar kemur fram aðgreining milli kjósenda stjórnmálaflokka með tilliti til afstöðu þeirra og að því leyti kemur þessi niðurstaða mér ekki á óvart.

Hins vegar er einnig athyglisvert að lítill sem enginn munur er á viðhorfum fólks eftir landshlutum. Sú niðurstaða sem ég ræddi um áðan, og er kannski athyglisverðust, um hin 80% sem lítið eða ekkert vita hvað felst í lögum um mat á umhverfisáhrifum, er auðvitað sérlega athyglisverð í ljósi orða sem hv. þm. hafði hér áðan: Þjóðin trúir á lögformlegt umhverfismat, sagði hann. Ja, betra er að ei sé satt því eigi er gott að trúa á það sem maður ekki veit um.

Nokkuð hefur verið rætt um hina almennu umræðu í samfélaginu varðandi þetta mál. Ég vil taka eitt lítið dæmi vegna þess að í einum fjölmiðli nú fyrir helgi sagði í frétt: ,,Stjórnarandstaðan segist ekki sætta sig við að þeir sem standi að byggingu Fljótsdalsvirkjunar leggi fram skýrslu um umhverfisáhrif virkjunarinnar því að slíkt geti ekki talist hlutlaust.``

Ég bið hv. þm. að setja þetta í samhengi við umrædd 80%. Hér hefur fréttamaður eftir einhverjum í nafni stjórnarandstöðunnar. Síðan er bætt við:

,,Stjórnarandstaðan hefur ítrekað að fylgja verði landslögum um lögformlegt umhverfismat vegna Fljótsdalsvirkjunar og ekki sé hægt að ganga út frá mati þeirra sem eiga beinna hagsmuna að gæta í málinu.``

Enn er vitnað í stjórnarandstöðu. Enn bið ég hv. þm. að hlýða á þetta í samhengi við þekkingu 80% landsmanna. Þá kemur væntanlega í ljós heimildin fyrir því sem fréttamaðurinn er að fara með. Í lok fréttarinnar segir einn hv. þm.:

,,En það breytir ekki því að lögformlegt umhverfismat, eins og það er túlkað í lögunum, er gert af óháðum aðila og við viljum að þessi virkjum sæti sömu meðferð og aðrar framkvæmdir í framtíðinni, að hún fari í þetta lögformlega umhverfismat og það verði ekki gert af þeim aðila sem virkjar. Því miður er þetta dæmi ekki einsdæmi því að svo mikið hefur verið um það að svona hafi verið um þessi mál fjallað.``

En hvað er það sem skiptir þá meginmáli í þessu? Að sjálfsögðu eru það þau áhrif sem virkjun og álver mun hafa ekki bara á Austurlandi heldur landinu öllu. Okkur ber að sjálfsögðu að líta á þetta mál í heild sinni. Það er ekki hægt að skoða virkjunina eina og einangraða. Hana ber að sjálfsögðu að tengja við álverið. Þess vegna er afar hæpið að ætla að bíða eftir því ferli sem ógert er ef farið væri með þetta mál í farveg laganna um mat á umhverfisáhrifum. Þá er allsendis óvíst að orkukaupandi verði til staðar. Þar með væri stuðningur minn við virkjun horfinn vegna þess að að sjálfsögðu er meginforsenda þess að ég styð virkjunarframkvæmdir sú að við getum tryggt orkusölu. Orkusala verður ekki í þessu tilfelli nema kaupandi sé tryggður.

Herra forseti. Þetta mál er ekki nýtt. Það hefur æðioft komið við sögu, bæði hér í þingsölum og eins í samfélaginu. Þetta mál var töluvert mikið í umræðu í kringum árin 1990 og 1991. Ég var svo heppinn að vera þá á öðrum vettvangi sem kom að þessu máli og málum sem því tengjast. Þá var barist fyrir því að fá Fljótsdalsvirkjun byggða en hins vegar var erfiðara að fá álver eða stóriðjuframkvæmdir á Austurlandi. Í viðtali frá því í ágústmánuði 1990 er sagt frá samþykkt í þingflokki þess stjórnmálaflokks sem ég var og er í, þ.e. þingflokkur Alþb. fjallaði um staðsetningu álvers en þar segir að staðsetningu álvers verði að haga þannig að af því hljótist ekki byggðaröskun. Það er alveg ljóst að Alþýðubandalagið leggur á þetta höfuðáherslu, er haft eftir þáv. landbrh. (Gripið fram í: Hver var landbrh.?) Það var hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon. Einnig er haft eftir þeim hv. þm. sama ár að hann telji að Eyjafjörður og Keilisnes séu óheppilegir kostir varðandi staðsetningu álvers. Hann bendir hins vegar á Austurland sem heppilegan landshluta og að eyfirsk fyrirtæki gætu sótt verkefni þangað í tengslum við álver.

Að sjálfsögðu er hér bent á afar mikilvægan þátt, þ.e. tengsl Norðurlands við það að staðsetja álver á Austurlandi. Þess vegna ítreka ég það sem ég sagði áðan. Að sjálfsögðu skipta byggðamálin mestu í þessu sambandi. Um þau snýst þetta mál fyrst og fremst.